Einar sigraði Óskar

Einar Skúlason á kjörfundi Framsóknarflokksins í dag.
Einar Skúlason á kjörfundi Framsóknarflokksins í dag. Mbl.is / Golli

Einar Skúlason, varaþingmaður verður í fyrsta sæti á lista Framsóknarflokksins í Reykjavík í borgarstjórnarkosningunum í vor. Einar fékk 298 atkvæði á kjörfundi, en Óskar Bergsson borgarfulltrúi fékk 182 atkvæði.

Alls greiddu 488 atkvæði á kjörfundinum. Einar fékk 62% atkvæða og Óskar 38%.

Einar sagði þegar úrslit lágu fyrir að hann myndi berjast af alefli fyrir því að tryggja góða kosningu flokksins í vor. "Þetta er okkar tími og við munum gera þetta saman."

Óskar sagði að það kæmi alltaf maður í manns stað. Hann sagðist óska Einari alls góðs í þeirri baráttu sem framundan væri.

Einar Skúlason, er 38 ára gamall. Hann er varaþingmaður Framsóknarflokksins og fráfarandi skrifstofustjóri þingflokks framsóknarmanna.

Nú er að hefjast kosning um annað sæti listans. Þrjár konur bjóða sig fram í það sæti, Guðrún Valdimarsdóttir, hagfræðingur, Salvör Gissurardóttir, viðskiptafræðingur og Valgerður Sveinsdóttir, lyfjafræðingur.

Framsóknarflokkurinn fékk einn mann kjörinn í síðustu borgarstjórnarkosningum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert