ESB óttist að vera hafnað af Íslendingum

Heming Olaussen, formaður Nei til EU ásamt íslensku sendinefndinni á …
Heming Olaussen, formaður Nei til EU ásamt íslensku sendinefndinni á fundinum í dag.

Sendinefnd níu Íslendinga er nú stödd í Noregi til að taka þátt í aðalfundi samtanna Nei til EU, en það eru systursamtök Heimssýnar, hreyfingar sjálfsstæðissinna í Evrópumálum. Á þriðja hundrað manns eru á landsfundinum en skráðir félagar samtakana eru u.þ.b.  30.000.

Landsfundinum lýkur á morgun og að því loknu mun sendinefnd Heimssýnar funda með forystumönnum Nei til EU um hvernig samstarfi við Ísland verði háttað. Á mánudaginn mun sendinefndin m.a. funda með fulltrúum stjórnmálaflokka Stórþingsins.

Að sögn Ásmundar Einars Daðasonar,  formanns Heimssýnar, var stór hluti setningarræðu formanns Nei til EU tileinkuð Íslandi. 15 ár eru í dag liðin síðan Norðmenn höfnuðu ESB aðild í þjóðaratkvæðagreiðslu og sagði Heming Olaussen formaður Nei að ESB hefði af því miklar áhyggjur að vera hafnað af Íslendingum. Evrópusambandið vilji aðeins eitt svar í þjóðaratkvæðagreiðslum. Í lokaorðum ræðu sinnar sagði hann að Norðurlandasamstarf megi ekki vera í orði heldur líka á borði.

„Við munum snúa bökum saman með vinum okkar frá eyríkinu í vestri. Við munum sýna að samheldni er orð með merkingu. Ef Heimssýn og Íslendingar biðja okkur um hjálp, þá munum við bregðast við. Ég vildi bara óska að norska ríkisstjórnin hefði líka verið liðlegri við að styðja nágranna okkar. Norræn samstaða þarf að standast þegar á reynir– sjáið bara hvernig Færeyingar stóðu með Íslendingum,” sagði Olaussen.

Fjölmargir landsfundarmenn hafa að sögn Ásmundar komið í ræðustól og tekið undir stuðingsyfirlýsingu formannsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert