1,5 milljarður mun sparast í bótakerfinu

Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar
Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar

Margvíslegar breytingar á atvinnubótakerfinu eru í vændum um áramót. Markmið breytinganna, sem unnar eru að frumkvæði félagsmálaráðherra, er m.a. að skerpa framkvæmd atvinnuleysistrygginga og að ná fram sparnaði, allt að 1,5 milljörðum, sem verða nýttir til að virkja atvinnulaust fólk með fjölbreytilegum úrræðum.

„Það má segja að markmiðið sé að skafa innan úr þessu kerfi sem er orðið mjög umfangsmikið," segir Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunnar. „Gert er ráð fyrir að við séum að greiða á milli 28-30 milljarða í atvinnuleysisbætur á næsta ári, sem eru gífurlegar fjárhæðir. Svo það má miklu til kosta til að reyna að ná þessu niður, fyrir nú utan hinn samfélagslega sparnað sem verður af því að virkja fólk sem situr eftir í atvinnuleysi."

Sjálfstætt starfandi með opinn rekstur fá aðeins bætur í 3 mánuði

Helstu breytingar snerta m.a.  bótarétt fólks með sjálfsætt starfandi rekstur og enn með reksturinn opinn. Réttur þessa hóps til bóta var tryggður með ákvæði sem sett var inn í lögin eftir hrunið síðasta haust, en mun nú skerðast við 3 mánuði. Það þýðir að viðkomandi geta aðeins fengið bætur samhliða því að halda rekstrinum opnum í 3 mánuði. Að þeim tíma liðnum verða þeir að loka rekstrinum og kom á bætur sem hefðbundnir launamenn, eða hverfa af bótum og sinna sínum rekstri óstuddir. „Við trúum að það verði langstærsti hópurinn, sem geti að þessum tíma liðnum treyst sér til að lifa af sínum rekstri og þurfi ekki á atvinnuleysisbótum að halda," segir Gissur.

Meðal annarra breytinga má nefna að bótaréttur til skólafólks er skertur á meðan námstíma stendur, þ.e.a.s. námsmenn geta ekki sótt bætur á sumrin meðan þeir bíða næstu annar. Á móti kemur að sá bótaréttur sem námsmenn vinna sér inn með sumarvinnu mun geymast til lengri tíma en áður. Þeir sem ekki fá vinnu að lokinni útskrift eiga þannig rétt á bótum vegna vinnu síðust 6 ára, en áður gilti bótarétturinn aðeins í 3 ár.

Þá munu hlutabætur breytast að því leyti að lágmark 20% starfshlutfalls þarf að skerðast áður en viðkomandi á rétt á bótum, en sem stendur þarf hlutfallið aðeins að skerðast um 10% og þurfti raunar upphaflega ekki að skerðast nema um 1% til að geta fengið hlutabætur. Samtímis verður sett þak á það sem menn geta haft í laun og atvinnuleysisbætur samanlagt og verður það 521.318. Að sögn Gissurar er þetta þó breyting sem snertir ekki marga því örfáir sem fái bætur vegna skerts starfshlutfalls hafi laun sem eru hærri en þetta.

Sérstaklega með ungt fólk í huga

Breytingarnar sem í vændum eru beinast ekki síst gagnvart atvinnulausum ungmennum á aldrinum 16-24 ára, sá hópur sem er hvað veikastur fyrir á vinnumarkaði.  Með aðgerðunum er stefnt að því að bjóða þeim sem geta hefðbundin námsúrræði í framhaldsskólakerfinu en sértækari úrræði þeim sem það þurfa, s.s. Fjölsmiðjuna, grunnmenntaskólann o.fl. sem getur verið kostnaðarsamt.

Gissur segir að geysilega mikið megi gera fyrir þá 1,5 milljarða sem sparast með breytingunum og úrræði sem þessi muni skila sér margfalt til baka. „Ég held að þetta sé mjög mikið framfaraspor og vonandi að þetta skili sér fljótt bæði í bráð og lengd, það er til svo mikils vinnandi að við náum að virkja þá sem eru atvinnulausir og eru í vonleysi og depurð, það skilar sér til lengri tíma.“

Hann bendir einnig á það að aðeins með því að ná að halda meðaltalsatvinnuleysi næsta ár í 8-9% á næsta ári í stað 10% muni sparast um 3-6 milljarðar í minni útgreiðslu bóta.

Lögin taka gildi um áramót og mun kerfið því breytast sem þessu nemur í janúar, en þó með aðlögunartíma í sumum tilfellum.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert