Blekking að skattur lækki á tekjulága

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. Heiðar Kristjánsson

Ríkisstjórnin beitir blekkingum og talnaleikjum til þess að halda því fram að skattbyrði á tekjulágt fólk, með laun undir 270 þúsundum á mánuði, fari lækkandi í hinu nýja skattkerfi. Þetta sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á Alþingi í morgun.

Bjarni spurði Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma, hversu mikið persónuafslátturinn hefði hækkað ef hann hefði verið látinn fylgja verðlaginu að fullu, í stað þess að hækka hann um 2.000 krónur eins og ríkisstjórnin ætlar að gera.

„Ég fæ ekki betur séð en að þessi ríkisstjórn sé að hækka skattbyrðina á þennan tekjuhóp," sagði Bjarni.

Steingrímur svaraði því til að persónuafslátturinn hefði fullverðtryggður hækkað um þær 2.000 krónur sem til stendur að hækka hann um, og annað eins. Semsagt um 4.000 krónur, en það hefði kostað ríkið um níu milljarða í töpuðum tekjuskatti.Sagði hann leið ríkisstjórnarinnar mun betri þar sem hún kæmi í veg fyrir að hækka þyrfti tekjuskattsprósentu á þá lægst launuðu. Að öðrum kosti hefði þurft að hækka hana um 2,4% um það bil, til að ná sama tekjuauka.

Til samanburðar má nefna að í núgildandi kerfi er tekjuskattur á lægst launaða 37,2% en í nýja kerfinu verður hann um 36%. Bjarni sagði þá að Steingrímur hefði staðfest að það sem hann haldi fram sé talnaleikur og blekkingar. ,,Gildandi lög í landinu hefðu tryggt þeim sem voru með 270 þúsund og lægra, lægri skatta en það sem tillögur ríkisstjórnarinnar hljóða upp á.

Sagði Steingrímur það fullkomlega innistæðulausa orðanotkun, ekki væri verið að segja ósatt um eitt eða neitt og sagði að það tæki aðeins nokkrar mínútur fyrir flesta að átta sig á breytingunum á skattkerfinu og áhrifum þeirra. Spurði hann hvort Bjarni væri svo gikkfastur í árinu 2007, að hann teldi forsendur til þess að missa níu milljarða út úr tekjuskattskerfinu.

Viðbót: Ekki er rétt sem fram kemur í fréttinni að tekjuskattur á laun undir 200.000 lækki í 36%. Var það ein þeirra hugmynda sem rædd var áður en frumvarp til breytinga á lögum um tekjuskatt var kynnt. Hið rétta er að prósentan verður óbreytt, 24,1% tekjuskattur og 13,1% hámarksútsvar, eða samanlagt 37,2%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert