ASÍ lýsir áhyggjum af sköttum

Frá ársfundi ASÍ nýlega.
Frá ársfundi ASÍ nýlega.

Á miðstjórnarfundi Alþýðusambands Íslands í dag var lýst miklum áhyggjum af fyrirhuguðum skattahækkunum og áhrifum þeirra á heimili og fyrirtæki. Einnig kom fram gagnrýni á ýmis atriði í frumvarpi félagsmálaráðherra um atvinnuleysistryggingasjóð og á fyrirhugaðar breytingar á fæðingarorlofi. 

„Við höfum mjög miklar áhyggjur af því, að umfang skattahækkananna sé meira en boðað var þegar við gerðum stöðugleikasáttmálann," sagði Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ, við mbl.is.

„Við höfum áhyggjur af því hvaða áhrif þessi mikla skattlagning mun hafa á rekstur og skuldir heimilanna," sagði Ingibjörg.

Hún bætti við, að miðstjórnin óttist að þetta muni leiða til enn frekari samdráttar í atvinnulífinu sem skerði þar af leiðandi kjörin og auki á atvinnuleysið.

Í ályktun miðstjórnarinnar segir, að mikilvægt sé að breytingar á sköttum einstaklinga verði með þeim hætti að þeim tekjulægstu verði hlíft sem kostur er. 

Þá mótmælir miðstjórnin boðuðum breytingum á skattlagningu tekna sjómanna og bendir á að við gerð stöðugleikasáttmálans í vor var því heitið að ekki yrði gripið til lagasetninga eða annarra stjórnvaldsaðgerða sem hafa bein áhrif á innihald kjarasamninga eða kollvarpa með öðrum hætti þeim grunni sem kjarasamningar byggja á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert