Loðnan að hverfa vegna hlýnunar sjávar?

Skip á loðnuveiðum.
Skip á loðnuveiðum. mbl.is/RAX

Björn Birnir, prófessor í stærðfræði við Kalíforníuháskóla, segir að umhverfisáhrif geti haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir göngu loðnunnar inn á Íslandsmið í framtíðinni. 

Þetta kom fram í máli Björns í gær á opnum fyrirlestri sem fjallaði um loðnugöngur á Íslandsmiðum. Fyrirlesturinn fór fram í Háskóla Íslands.  Björn hefur unnið reiknilíkan í samstarfi við vísindamenn við UCSB, Háskóla Íslands og Hafrannsóknarstofnun með það í huga að spá fyrir um göngu loðnunnar inn á miðin við landið. 

Samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands sýndi Björn fram á í fyrirlestri sínum hvernig unnt sé með stærðfræðilegum aðferðum og nútímatölvum að reikna göngur loðnunnar. Björn sýndi hvernig ferðum loðnunnar er aðallega stjórnað af straumum og hitastigi sjávar. Þannig geti hlýnun sjávar haft verulega alvarlegar afleiðingar fyrir göngur loðnunnar inn á Íslandsmið og þannig valdið Íslendingum miklum búsifjum.

Í máli Björns kom fram að loðnan sé ákaflega nytsamlegur fiskur því hún flytji lífmassa úr norðurhöfum hingað á Íslandsmið. Hún éti ógrynni dýrasvifs í Íshafinu og flytji þannig gríðarlegan lífmassa á suðlægari slóðir þar sem nytjafiskar Íslendinga geta étið loðnuna og notið grænþörungablómans, sem er í Íshafinu á sumrin.

„Það er bara einn aðili sem hefur meiri áhuga á loðnunni en við, og það er þorskurinn,” sagði Björn Birnir og vísaði þá til þess að loðnan er ekki bara nytjafiskur í þeim skilningi að menn vilja veiða hana og vinna, heldur er hún gríðarlega mikilvægur hluti í fæðu þorsksins. 

Björn Birnir.
Björn Birnir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert