Tveir í 10 ára fangelsi

Sakborningarnir koma í land eftir skútusiglinguna.
Sakborningarnir koma í land eftir skútusiglinguna. mbl.is/Helgi Garðarsson

Hæstiréttur dæmdi í dag höfuðpaurana í Papeyjarmálinu svonefnda, Hollendinginn Peter Rabe og Rúnar Þór Róbertsson, í tíu ára fangelsi hvorn fyrir þátt sinn í málinu. Árni Hrafn Ásbjörnsson sem einnig var handtekinn um borð í skútunni Sirtaki í apríl sl. var dæmdur í níu ára fangelsi.

Mönnunum þremur var, ásamt þremur öðrum mönnum, gefið að sök að  hafa staðið saman að innflutningi á samtals 55 kílóum af amfetamíni, tæpum 54 kílóum af kannabis og 9432 e-töflum. Fíkniefnin voru flutt áleiðis til Íslands frá Belgíu með skútu, en slöngubát siglt til móts við hana og bátarnir mæst á hafi úti innan við 30 sjómílur suðaustur af landinu, þar sem efnin voru flutt milli báta. Slöngubátnum var síðan siglt með efnin til Djúpavogs og þau sett þar í bíl, sem lögregla stöðvaði síðar við Höfn og lagði hald á fíkniefnin. 

Mennirnir sex voru allir fundir sekir í héraðsdómi og dæmdir í fangelsi en þeir þrír, sem þyngstu dómara hlutu, áfrýjuðu til Hæstaréttar. Peter Rabe krafðist þess að máli hans yrði vísað frá dómi og taldi að íslenska ríkið brysti lögsögu yfir honum þar sem hann hefði aldrei komið inn fyrir 12 mílna landhelgi Íslands.

Hæstiréttur segir, að af gögnum málsins sé ljóst að Rabe hafi verið leigutaki og skipstjóri skútunnar, sem skráð var í Belgíu. Þá sé óumdeilt að skútunni hafi ekki verið siglt inn í 12 mílna landhelgi. Hins vegar verði að virða háttsemi sexmenninganna sem eina heild og brot þeirra hafi verið fullframið þegar efnin voru flutt inn í landhelgina. Brot Rabe verði ekki skilið frá þætti annarra í málinu. 

Þá taldi Hæstiréttur, að skilyrðum til töku skútunnar á úthafinu hafi verið fullnægt með hliðsjón af hafréttarsamningi Sameinuðu þjóðanna. Þannig mætti hefja eftirför þótt skip hefði ekki komið inn í landhelgi strandríkis ef einhver af bátum þess væri staddur innan hennar. Í þessum efnum yrði að jafna slöngubátnum, sem sótti fíkniefnin, til báts hins erlenda skips.

Hæstiréttur staðfesti því fangelsisdóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Rabe, Rúnari Þór og Árna. 

Skútan Sirtaki á siglingu í fylgd varðskips.
Skútan Sirtaki á siglingu í fylgd varðskips. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert