Fá ekki að fara á þingpalla

Alþingishúsið
Alþingishúsið Árvakur/Golli

Hópur úr svonefndum Siðbótarhópi stendur nú fyrir utan Alþingishúsið og er meinuð innganga, að sögn konu úr hópnum. Hún sagði að a.m.k. ellefu manns norpi fyrir utan þingið þó að laus sæti séu á áheyrendasvæði þingpallanna.

Konan sagði látið í veðri vaka að sá sem annast gæslu á þingpöllum geti ekki tekið við fleirum en nóg pláss sé á pöllunum. Hún sagði að fólkið vilji einungis fá að fylgjast með umræðunni í þinginu. Þau voru þarna í gærkvöldi einnig og var þá líka úthýst.

Konan kvaðst hafa setið á þingpöllum um stund fyrr í kvöld en brugðið sér út og skilið m.a. handtösku sína eftir. Síðan hafi hún ekki komist inn aftur líkt og hópur fólks sem bíði fyrir utan þinghúsið. 

Ekki er fullt á pöllunum en fjöldi áheyrenda samt takmarkaður, að sögn konunnar. Hún sagði að ef einhver yfirgefi þingpallana megi annar koma í hans stað. Þá sagði hún hafa flogið fyrir að þetta sé gert að kröfu yfirvalda eldvarna, en það hafi ekki fengist staðfest. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert