Áætlun AGS „Excel-æfing“

Franek Rozwadowski og Mark Flanagan frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.
Franek Rozwadowski og Mark Flanagan frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. mbl.is/Eggert

„Þetta er bara Excel-æfing, og það er til skammar hvernig þeir ætla að fara að þessu,“ segir Gunnar Sigurðsson leikstjóri í samtali við mbl.is. Hann átti fund með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í dag ásamt 9 manna þverpólitískum hóp, sem  hefur meðal annars staðið fyrir opnum Borgarafundum síðastliðið ár.

Hópurinn, sem sendi framkvæmdastjóra AGS annað bréf nýverið, fundaði með fulltrúum sjóðsins, m.a. Mark Flanagan, formanni sendinefndar AGS á Íslandi, í um tvær klukkustundir fyrir hádegi í dag. Hópurinn vildi ræða þær efasemdir sem hann hefur varðandi þær forsendur sem AGS gefi sér varðandi efnahagsáætlunina.

Gunnar Skúli Ármannsson læknir, sem einnig var á fundinum, tekur í sama streng og nafni sinn. Hann segist hafa komið út af fundinum sannfærður um efnahagsáætlun AGS gangi ekki upp. „Auðvitað getur það gengið upp ef við hættum að flytja inn og skerum allt hér algjörlega inn að beini. Og gefum jafnvel frá okkur auðlindir og annað upp í skuldir,“ segir Gunnar Skúli í samtali við mbl.is.

Óvísindalegur reikningur

Hann segir að vöruskiptajöfnuðurinn, sem eigi að vera um jákvæður um 160 milljarða kr. næstu árin, hafi verið á meðal umræðuefnis. „Okkur finnst það vera fáránlegt miðað við söguna. Því þá þyrftum við eiginlega að hætta að flytja inn allt nema mat, lyf og súrál. En við megum ekki takmarka innflutning,“ segir Gunnar Skúli.

Hann bætir við að hópurinn hefði þrýst mjög á fulltrúa AGS varðandi þessi mál. Fulltrúinn hefði loks sagt að AGS hefði fengið út jákvæðan greiðslujöfnuð með því að skoða einfaldlega skuldirnar. „Þeir litu bara á skuldirnar og þá þurfa þeir að hafa þetta mikið í veskinu í plús til þess að geta borgað þessar skuldir,“ segir Gunnar Skúli og bætir við að útreikningur AGS sé ekki vísindalegri en þetta.

Segja áætlunina glórulausa

Þá var rætt um hugmyndir AGS um að tekjur ríkissjóðs muni árlega aukast um 50 milljarða kr. næstu árin. Gunnar Skúli segir að fulltrúi sjóðsins hafi sagt að þetta kæmi inn með skatttekjum. „Þá bentum við honum á að það væri ekki vinnandi vegur að gera ráð fyrir því að skatttekjurnar árið 2010 yrðu jafnmiklar og árið 2008, eins og þeir gera ráð fyrir. Því að þessi tvö ár eru gjörólík,“ segir hann og bendir á að árið 2007 hefði ríki haft miklar tekjur af bönkunum auk þess sem fólk hafði mun hærri tekjur en nú.

„Hann gat ekkert sannfært okkur og bent á neinar leiðir. Svo bættum við um betur og spurðum „Hvernig ætlarðu að fá 50 milljarða á ári [...] í þessu árferði?“ Við fengum engin svör við því,“ segir hann og heldur áfram: „Þessir máttarstólpar undir áætlun AGS, þeir hrundu hver á fætur öðrum. Það segir manni það að þessi áætlun er glórulaus,“ segir Gunnar Skúli.

Lilja Mósesdóttir, Einar Már Guðmundsson og Ólafur Arnarsson voru einnig á meðal þeirra sem funduðu með fulltrúum AGS í dag.

Gunnar Skúli Ármannsson læknir.
Gunnar Skúli Ármannsson læknir.
Gunnar Sigurðsson leikstjóri.
Gunnar Sigurðsson leikstjóri.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert