„Ekkert mál hentar betur"

Fjölmennt var á samstöðufundi fyrr á árinu á Austurvelli
Fjölmennt var á samstöðufundi fyrr á árinu á Austurvelli mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ólafur Elíasson, talsmaður InDefence hópsins, segir ekkert mál henta betur í þjóðaratkvæðagreiðslu og Icesave en Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði í dag sum mál ekki til þess fallin að leggja undir þjóðina þegar hann var spurður hvort komi til greina að þjóðin fái að greiða atkvæði um Icesave.

Ólafur sagði í samtali við mbl.is að þjóðin hafi fengið heilt ár til að ræða Icesave-málið og ýmsasr hliðar þess. Jafnframt hafi fjöldi sérfræðinga veitt álit sitt. Ekki sé hægt að finna nokkurn Íslending sem kemur þetta mál ekki við.

Hann segir að gríðarlegir hagsmunir séu undir. Því miðað við tölur sem InDefence hópurinn fékk frá samninganefndinni þá lenda um 300-400 milljarðar króna á íslensku þjóðinni. Því megi gera ráð fyrir að þetta verði 40-50 þúsund krónur á mánuði á hverja fjölskyldu í átta ár.

„Satt að segja treysti ég persónulega þjóðinni miklu betur til að standa í lappirnar gagnvart Hollendingum og Bretum heldur en núverandi stjórnvöldum," segir Ólafur í samtali við mbl.is. 

„Þrátt fyrir að vera bara tónlistarkennari þá gengur mér ágætlega að skilja þetta mál. Við í InDefence höfum rætt þetta mál við alla þessa sérfræðinga, þingmenn og ráðherra og höfum djúpa sannfæringu fyrir því að íslenskum almenningi sé ekki síður treystandi til að taka lokaákvörðunina í þessu máli. Þvert á móti," segir Ólafur.

Alls hafa um 25 þúsund manns skrifað undir áskorun á vef InDefence þar sem forseti Íslands er hvattur til að staðfesta ekki væntanleg Iceseve lög. Staðfesti forsetinn ekki Icesavelögin verði þau borin undir þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hér er hægt að skrifa undir 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert