Krefst endurskoðunar á verklagsreglum

Femínistafélag Íslands skorar á barnaverndaryfirvöld og stjórnvöld í landinu að læra af biturri reynslu Bandaríkjamanna þegar kemur að notkun PAS-kenningarinnar. Félagið krefst endurskoðunar á verklagsreglum og löggjöf í umgengnis- og forsjármálum. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem félagið hefur sent frá sér.

Þar kemur fram að vegna mikillar opinberrar umræðu um forræðismál og kröfur um breytingar á barnalögum, hafi Femínistafélag Íslands fyrr í vikunni haldið opinn fund um málefnið þar sem Elísabet Gísladóttir lögfræðingur og Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur hafi flutt erindi.

Í tilkynningu félagsins er bent á að erindi Elísabetar hafi byggst á rannsókn hennar um áhrif heimilisofbeldis í ákvörðunum um umgengnis- og forsjármál. Rannsóknir sýni ótvírætt að heimilisofbeldi gegn foreldri og börnum hafa miklar og alvarlegar afleiðingar. Þrátt fyrir það beri niðurstöður rannsóknar Elísabetar með sér að lítið tillit sé tekið til slíks ofbeldis á heimilum þegar tekin sé ákvörðun um forsjá barns. Oftar en ekki endurspegli dómar í forræðismálum þá hefðbundnu réttarfarslegu sýn að báðir foreldrar séu vel hæfir til að fara með forsjá barns, óháð því hvort annað þeirra hafi beitt barn eða hitt foreldrið ofbeldi.

„Gunnar Hrafn Birgisson sálfræðingur hefur sérhæft sig í forsjár- og umgengnismálum og kynnt sér ítarlega kenningu um hið svokallaða foreldra firringar heilkenni eða PAS (parental alienation syndrome), en það var sett fram af geðlækninum Richard A. Gardner árið 1985.
 
PAS-kenningin fjallar um að forsjárforeldri, oftast móðir, innræti barninu óbeit á forsjárlausa foreldrinu, oftast föður, í þeim tilgangi að koma í veg fyrir samband föður og barns. Afleiðingarnar hafa m.a. verið þær að ekki hefur verið hlustað á börn sem beitt hafa verið ofbeldi af föður vegna þess að þau eru talin vera innrætt af móður. Rannsóknir hafa ekki getað sýnt fram á réttmæti PAS hugtaksins og samtök sálfræðinga og geðlækna í Bandaríkjunum viðurkenna hugtakið ekki.

Hérlendis hefur krafa Félags um foreldrajafnrétti (áður Ábyrgir feður) knúið á um að PAS aðferðum verði beitt í forsjár- og umgengnismálum. Áhrifa þrýstings frá félaginu er þegar farið að gæta og varar Gunnar Hrafn við þeirri þróun. Í Bandaríkjunum, þaðan sem kenningin kemur og henni hefur verið mest beitt, hefur beiting PAS haft skelfilegar afleiðingar fyrir alla hlutaðeigandi, sérstaklega börn. Í beinu framhaldi af rannsókn á áhrifum af PAS ályktaði Þjóðarráð dómara í unglinga og fjölskyldudómi árið 2006 að bandarískir dómstólar skuli vísa greiningum um PAS alfarið frá dómi og strika það út úr matsgögnum í forsjárdeilumálum.


Femínistafélag Íslands skorar á barnaverndaryfirvöld og stjórnvöld í landinu að læra af biturri reynslu Bandaríkjamanna. Félagið krefst endurskoðunar á verklagsreglum og löggjöf í umgengnis- og forsjármálum. Ofbeldi er alvarlegt mál og skal aldrei þaggað - börn verða að njóta vafans ef grunur um slíkt er til staðar. Hagur og velferð barna skal ávallt vera í fyrirrúmi, þeirra rödd og mannréttindi ber að virða,“ segir í yfirlýsingu félagsins.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert