Ranglæti gagnvart Íslendingum

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra.
Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Kristinn Ingvarsson

Ögmundur Jónasson, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, fer hörðum orðum um þá ákvörðun Norræna fjárfestingarbankans að hækka vexti á íslenska lánshafa. „Mér finnst í þessu fólgnar yfirgengilegar mótsagnir. Þetta samræmist ekki heilbrigðri skynsemi,“ segir Ögmundur.

Ögmundur segir hækkunina minna á þær „drápsklyfjar“ sem fjármálastofnanir hafi lagt á almenning á undanförnum árum.

„Mín gagnrýni gagnvart Norræna fjárfestingarbankanum er af sama toga og gagnrýni mín gagnvart bönkum og fjármálastofnunum á undanförnum árum sem að lögðu drápsklyfjar á þá sem að eru ekki aflögufærir og þá er ég að vísa til dráttarvaxta og allskyns refsivaxta,“ segir Ögmundur og heldur áfram. 

„Staðreyndin er sú að þeir sem að eru í vanskilum hjá fjármálastofnunum eru komnir í stöðu þar sem að þeir hafa ekki burði til að greiða af lánum sínum. Þetta á við um skuldsett sveitarfélög og orkufyrirtæki sem að eru með lán hjá Norræna fjárfestingarbankanum. Þannig að þarna er um samsvörun að ræða. Að reiða refsivöxtinn gagnvart þessum aðilum tel ég einfaldlega ekki verið skynsamlegt. Þetta torveldar þessum aðilum að standa við skuldbindingar sínar.

Síðan er það spurning um réttlætið. Þetta er banki sem að er í eigu Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna og við eigum aðild að honum. Maður spyr sjálfan sig hvernig á því standi að eftir efnahagshrun Íslands að þá skulum við vera beitt þessu harðræði af hálfu þessara aðila. Þetta er sagt byggjast líka á lánshæfismati okkar. Ég hef nú oft leyft mér að hafa efasemdir um þessi lánshæfisfyrirtæki sem eru iðulega notuð sem valdstjórnartæki.

Menn bera því fyrir sig að lánshæfismat okkar og skuldunautanna sé slæmt og að það sé ástæða til að þrengja meira að þeim. Mér finnst í þessu fólgnar yfirgengilegar mótsagnir. Þetta samræmist ekki heilbrigðri skynsemi.“

Erfið lausafjárstaða er skýringin

Ögmundur segir nauðsynlegt að hafa erfiða stöðu íslenskra lántakenda í huga. 

„Þegar að sveitarfélög og orkufyrirtæki greiða ekki af skuldum sínum er það vegna erfiðrar lausafjárstöðu og þrenginga. Og þá finnst manni það skjóta skökku við að herða að þessum aðilum ólarnar. 

Það er mjög mótsagnakennt að bera sig að með þessum hætti, auk þess sem að mér finnst þetta ranglátt. Það eru norrænu ríkin sem að standa að bankanum og ég hef sagt að þegar fulltrúar þessara ríkja koma næst til samfagnaðar til að ræða innbyrðis vináttu sína í milli að þá væri athugandi að taka á dagskrá hvort þetta sé í samræmi við þau hástemmdu orð sem þá eru iðulega látin falla.“

Upplýsingar frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum verði upp á borðinu

Aðspurður um þau ummæli talsmanna þverpólitísks hóps sem að hitti fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í dag að þar fari menn sem að stundi „Excel-æfingar“ segir Ögmundur brýnt að öll gögn liggi upp á borðinu. 

„Mér finnst mjög mikilvægt að þing og þjóð fái greiðan aðgang að öllum þessum upplýsingum þannig að ef við byggjum ákvarðanir okkar á því sem sannast er. Ég hef ekki átt fund með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eða Seðlabankans nýlega. Við í efnahags- og viðskiptanefnd áttum hins vegar fund með þeim áður en við sendum álitsgerð til fjárlaganefndar á sínum tíma.

Þar orkaði vissulega margt tvímælis. Margt var óljóst um efnahagsframvinduna og burði okkar til að greiða af þeim skuldbindingum sem að við erum að takast á herðar. Mér finnst mjög mikilvægt að allar þessar upplýsingar komi fram í dagsljósið og ég fagna opinni og viti borinni umræðu um þessi mál.“

Fjáraustur í Varnarmálastofnun

Ögmundur fagnar þeirri ákvörðun Össurar Skarphéðinssonar að leggja niður Varnarmálastofnun.

„Þar tel ég að utanríkisráðherra sé á réttri braut. Hann er að forgangsraða skynsamlega vtel ég era. Vinstrihreyfingin - grænt framboð gagnrýndi stofnun Varnarmálastofnunar á sínum tíma og að þar væri verið að verja miklum fjármunum á röngum forsendum og með rangar áherslur að leiðarljósi. Ég tel að á samdráttartímum séu þetta réttar áherslur hjá utanríkisráðherra og ég styð það heils hugar,“ segir Ögmundur Jónasson

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert