150 milljónir söfnuðust á Degi rauða nefsins

„Það söfnuðust yfir 150 milljónir í átakinu og það er framar björtustu vonum,“ segir Stefán Ingi Stefánsson, framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi. Í gær var Dagur rauða nefsins og í gærkvöldi náði söfnunarátakið hápunkti með beinni útsendingu.

„Peningarnir fara í verkefni UNICEF. Þeim er úhlutað þangað sem þörfin er mest hverju sinni. Þetta fer þangað sem tíðni barnadauða er hæst, þar sem flest börn búa, tekjur minnstar og menntun lægst,“ segir Stefán og bætir við að hann sé þakklátur öllum þeim sem lögðu hönd á plóg og styrktu söfnunina.

Söfnunarútsending frá Borgarleikhúsinu var í opinni dagskrá á Stöð 2 í gærkvöldi þar sem listamenn og grínistar létu ljós sitt skína til að safna styrkjum fyrir verkefni UNICEF í þágu bágstaddra barna um allan heim.

Rauðu trúðanefin hafa að undanförnu verið seld á 800 kr. til styrktar verkefnum UNICEF. Nefin fást í verslunum Bónuss og Hagkaups um land allt, Kjarval-Klaustri og í sérverslunum Te & kaffi. Sem dæmi getur UNICEF bólusett 40 börn gegn mislingum fyrir andvirði eins nefs og varið þau þannig gegn þessum lífshættulega sjúkdómi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert