Ferðatími styttist á milli hverfa

Dregið hefur úr umferð í höfuðborginni
Dregið hefur úr umferð í höfuðborginni mbl.is/Ómar Óskarsson

Algengur ferðatími á álagstímum milli úthverfa og miðborgar er 28 - 38 mínútur báðar leiðir og hefur styst um 3 - 4 mínútur milli áranna 2008 og 2009. „Markmið borgaryfirvalda er að allir komist leiðar sinnar á greiðan og öruggan hátt óháð vali á ferðamáta,“ segir Gísli Marteinn Baldursson formaður umhverfis- og samgönguráðs, í fréttatilkynningu.

Ferðatími einkabíla milli úthverfa borgarinnar og miðborgar að morgni og síðdegis var mældur fyrstu vikuna í október 2009. Einnig var hraðinn kannaður og reyndist morgunhraði umferðar vera á bilinu 23 - 44 km/klst. og síðdegishraðinn á bilinu 35 - 49 km/klst. Niðurstaðan var að morgun- og síðdegisumferðin er greiðari og hraðari en undanfarin ár, samkvæmt tilkynningu.

Gísli Marteinn segir að efnahagsástandið hafi greinilega áhrif á samgönguvenjur fólks. „Uppbygging hjólastíganets og góðra almenningssamgangna gefur fólki kost á að ferðast öðruvísi en á bíl. Það minnkar álagið á götum borgarinnar og umferðin gengur greiðar fyrir sig,“ segir hann.

Samkvæmt  umferðartalningum sem gerðar eru í október ár hvert hefur umferðarþungi á gatnakerfinu í heild minnkað frá hámarki árið 2007 og virðist vera að leita í sama horf og var árin 2004-2005. Í Ártúnsbrekkunni í fyrra mældust til að mynda 86.300 bílar á sólarhring en nú í ár mældust þar 85.200 bílar. Á Háaleitisbraut 15.407 á þessu ári en voru 16.640 á liðnu árið. Umferð á  Kringlumýrarbraut jókst hins vegar úr 67.300 bílum á sólarhring árið 2008 í ár 68.800 bíla.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert