Bjargað úr Steinholtsá

Mennirnir þrír á þaki bílsins í Steinholtsá.
Mennirnir þrír á þaki bílsins í Steinholtsá. mynd/Jón Hermannsson

Björgunarsveitarmenn af Suðurlandi björguðu í kvöld þremur mönnum af þaki bíls sem festist í Steinsholtsá, á leiðinni í Þórsmörk. Þeir höfðu verið í ánni á annan klukkutíma, orðnir kaldir og hraktir.

Mennirnir voru á leið yfir Steinsholtsá þegar áin tók bílinn. Mikill vöxtur er í ánum á svæðinu og afleitt veður. Þannig er Steinsholtsá margföld á breidd, miðað við það sem venjulega er. Mennirnir komust upp á þak bílsins.

Mikið lið frá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar á Suðurlandi var kallað út til aðstoðar mönnunum kl. 18.40.

Stórum björgunarbíl frá Flugbjörgunarsveitinni á Hellu var ekið út í ána og mönnunum bjargað upp á pall. Svanur Lárusson í svæðisstjórn björgunarsveitanna segir að björgunin hafi gengið vel. Búið var að bjarga mönnunum um klukkan átta í kvöld. Nú er verið að hlynna að mönnunum og hlýja þeim. Þeim verður síðan komið til byggða.

Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út en henni var snúið við þegar tekist hafði að bjarga mönnunum.

Björgunarmenn eru að meta það hvort þeir reyna að ná bílnum upp úr ánni í kvöld.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert