Vísa fullyrðingum um villandi framsetningu á bug

Illugi Gunnarsson.
Illugi Gunnarsson.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokks hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem fullyrðingum þingflokksmanna Samfylkingarinnar og Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs um villandi framsetningu á kynningarefni sjálfstæðismanna um skatta er vísað á bug.

Í yfirlýsingunni segir Illugi Gunnarsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks, að það sé rangt hjá ríkisstjórninni og formönnum þingflokka hennar að skattar muni lækka hjá þeim sem lægst hafi launin. Afnám vísitölutengingar persónuafsláttar sé ígildi skattahækkunar á almenning og þar með þeirra sem hafi lægstar tekjur. Þetta sé augljóst, þar sem virði persónuafsláttar minnkar vegna verðbólgu og því fylgi skattleysismörk ekki verðlagsþróun.

„Þessi staðreynd var Steingrími J. Sigfússyni ljós árið 2003. Í grein í Morgunblaðinu þann 13 mars 2003 segir Steingrímur: „Það er staðreynd að fjöldinn allur af venjulegu launafólki á í miklum erfiðleikum með að ná endum saman. Kemur þar margt til, m.a. aukin skattbyrði undanfarin ár vegna þess að skattleysismörk hafa ekki fylgt verðlagsþróun.“

Skattbyrði láglaunafólks minnkar ekki með því að afnema lögbundna hækkun persónuaflsáttar, með hækkun virðisaukaskatts eða með nýjum sköttum á eldsneyti, rafmagn og heit vatn og ýmsum öðrum skattahækkunum. Hafi það verið markmið að hækka ekki skatta hjá láglaunafólki, þá hefur því markmiði augljóslega ekki verið náð," segir Illugi. 

Yfirlýsing sjálfstæðismanna

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert