Milljarð vantaði í ársreikning

Ný sundlaug var vígð á Álftanesi fyrr á árinu.
Ný sundlaug var vígð á Álftanesi fyrr á árinu. Árni Sæberg

Í skýrslu um rannsókn á fjárreiðum og rekstri sveitarfélagsins Álftaness eru kynntar „fyrstu hugmyndir“ um mögulega hagræðingu. Meðal tillagna er að leikskólarnir tveir verði sameinaðir, almenningsbókasafni lokað, framlag til dagmæðra minnkað og starfsemi tónlistarskólans lögð niður tímabundið.

Skýrslan var unnin að af R3-Ráðgjöf fyrir eftirlitsnefnd með fjámálum sveitarfélaga eftir að ljóst varð að fjármál Álftaness voru í miklum ólestri. 

Sparnaðartillögurnar sem þar koma fram eru að sönnu róttækar. Þá er lagt til að 15% álag verði sett á útsvar og að fasteignaskattar verði hækkaðir upp að hámarki. Jafnframt er tekið fram að þrátt fyrir hærri skatta og mikinn sparnað „sé vandséð að að Sveitarfélagið Álftanes geti orðið sjálfbært nema til komi verulegur utanaðkomandi stuðningur.“

Aðrar sparnaðartillögur eru m.a. að starfsemi tæknideildar verði sinnt af verkfræðistofu, atvinnumálanefnd verði felld niður, styrkir til meistaraflokks ungmennafélagsins verði felldir niður og breytt verði viðmiði um hámarksfjölda í bekkjum. Þá verði fræðslustjóra og leikskólafulltrúa sagt upp og í staðinn ráðinn einn ódýr starfsmaður.

Gerðu ekki grein fyrir leigusamningum

Í skýrslunni er ítarlega fjallað um leigusamning sveitarfélagsins við fasteignafélagið Fasteign en Álftanes leigir af því sundlaug og íþróttahús. Leigugreiðslurnar eru færðar sem skuldbinding utan efnahags í ársreikningum sveitarfélagsins. Í skýrslunni kemur fram að svo virðist sem skuldbinding vegna viðbyggingar við íþróttahús og sundlaugarmannvirki sé vantalin í ársreikningi árið 2007. Miðað við gengi og vísitölu megi reikna með að skuldbindingin hafi í árslok árið 2007 numið liðlega 800 milljónum króna. Til viðbótar hafi í nóvember 2007 verið undirritaður samningum um leigu lóðarinnar sem íþróttamannvirkin standa á en með honum skuldbatt sveitarfélagið sig til að leigja lóðina í 30 ár. Núvirt skuldbinding í árslok 2007 nam um 250 milljónum. 

Samtals er hér um að ræða skuldbindingu sveitarfélagsins Álftaness um liðlega einn milljarð króna sem ekki var getið um í skýringum með ársreikningi 2007, segir í skýrslunni. 

Boðað til íbúafundar

 Boðað hefur verið til íbúafundar annað kvöld, fimmtudagskvöldið 17. desember í Íþróttahúsinu. Fundurinn hefst klukkan 20. Skýrsluna má m.a. nálgast hér

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert