Fréttaskýring: Af hverju ætti læknir að vinna á Íslandi?

Í heilbrigðiskerfinu er mikill niðurskurður, sem hefur áhrif á kjör …
Í heilbrigðiskerfinu er mikill niðurskurður, sem hefur áhrif á kjör lækna. Læknar hafa reynslu að utan og þeir yngri eru hreyfanlegir. mbl.is/Ásdís

Eitt lén í Svíþjóð óskaði eftir þrjátíu sérfræðingum í heimilislækningum til starfa. Einnig vantaði 330 lækna á Gautaborgarsvæðinu í haust, í kjölfar breytinga á heilbrigðiskerfinu þar.

Læknar eiga auðveldara en flestir aðrir með að fá störf í útlöndum. Flestir hafa þeir lært erlendis og hafa starfsreynslu þaðan. Víða er einnig mikil eftirspurn eftir læknum, til dæmis á Norðurlöndunum. Í kreppunni eru flestir, samkvæmt samtölum við fjölmarga lækna, farnir að leiða hugann að störfum erlendis. Morgunblaðið greindi nýlega frá þremur sérfræðilæknum sem farnir eru frá landinu og síðan þá hafa fleiri læknar haft samband og sagst vera á förum eða á leið í atvinnuviðtöl erlendis fyrir föst störf.

Tvöfalt til þrefalt hærri laun

Það er ólíku saman að jafna fyrir lækni að starfa hér eða erlendis. Margir fá 15-20% launalækkanir þessi misserin og fá í ofanálag tekjuskattshækkun, þar sem þeir teljast hátekjumenn. Samanburðurinn verður ennþá verri þegar gengishrun krónunnar kemur inn í og ljóst er að tvöfalt til þrefalt hærri laun bjóðast annars staðar.

Svo eru læknar í sömu vandræðum og aðrir Íslendingar, vegna húsnæðisskulda í erlendri mynt. Fyrir suma er þetta því hreinlega spurning um að sleppa frá gjaldþroti.

Fyrirtækið Hvítir sloppar, sem rekur samnefnda vefsíðu, er vinnumiðlun fyrir lækna. Fyrir milligöngu fyrirtækisins hafa tugir íslenskra lækna farið í tímabundin störf erlendis á þessu ári, ekki síst heilsugæslulæknar. Einnig hafa nokkrir fengið fastráðningar erlendis í gegnum fyrirtækið.

Hvítir sloppar er eina íslenska vinnumiðlunin af þessum toga en ekki fara þó allir í gegnum hana. Sumir nota sín eigin tengsl til að fá störf og enn aðrir nota þjónustu erlendra vinnumiðlana. Þann fyrirvara verður þó að gera að læknar geta verið mjög mishreyfanlegir eftir því hvaða sérgrein þeir leggja stund á. Á móti kemur þá að sérgreinar eru mjög misfjölmennar. Til dæmis þyrftu afar fáir hjartaskurðlæknar að flytja úr landi til að slæmt ástand myndi skapast.

Guðmundur Karl Snæbjörnsson læknir stofnaði Hvíta sloppa sem hálfgert kreppufyrirtæki, fyrst og fremst til að auðvelda læknum að komast í tímabundin störf erlendis, aftur til að auðvelda þeim að vera áfram á Íslandi lungann úr árinu, eins og flestir þeirra vilji.

Mörghundruð stöður í boði

Hann segir eftirspurnina í Skandinavíu hvarvetna gríðarlega mikla. „Í sumar og haust sýndu opinberar tölur eftirspurn eftir sérfræðingum í heimilislækningum í Västra Götaland í Svíþjóð. Þar vantaði 330 sérfræðinga í heimilislækningum,“ segir Guðmundur. Annað lén, svipað Íslandi að fólksfjölda, hafi sent beiðni til hans um heimilislækna sem vantaði til að fylla þrjátíu stöður. „Það er legið á mér um að skaffa lækna hingað og þangað,“ segir Guðmundur Karl. „Eftirsóknin eftir þessum starfskrafti er gríðarleg.“

Ekki náðist í Álfheiði Ingadóttur heilbrigðisráðherra í gær, til að inna hana eftir viðbrögðum við mögulegum atgervisflótta úr læknastétt.

Dettur út kynslóð?

Læknar hafa verið um 3,7 á hverja þúsund íbúa hér á landi síðustu árin. Það er svipað og á Norðurlöndunum og vel yfir meðaltali OECD ríkja. Á móti kemur að hér eru fámenn samfélög sem þurfa engu að síður læknisþjónustu og því full þörf fyrir marga lækna miðað við fólksfjölda hér á landi.

Þorbjörn Jónsson, formaður læknaráðs Landspítalans, segir minna um að læknar á LSH fari út en t.d. úr heilsugæslunni. Nokkur tilvik séu þó komin, jafnvel um fastráðningar og margir séu að hugsa sitt ráð. „Ég býst við að sérstaklega séu þetta yngri sérfræðingar. Sá hópur sem dregur með sér ný viðhorf, þekkingu og reynslu til landsins,“ segir hann. Þetta sé ekki síst fólk undir fimmtugu, veruleg hætta sé á atgervisflótta úr þeim hópi og jafnvel hætta á að ein kynslóð lækna detti út að stórum hluta.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert