Skrímslafélag á fjárlögum

Þór Saari.
Þór Saari. mbl.is/Árni Sæberg

„Undir þessum lið er eitt atriði sem ég tel kannski ekki endilega miklu verra eða miklu betra en önnur, en þetta er kannski lýsandi dæmi um það í hvers konar verkefni Alþingi kýs að veita fjármuni Alþingis án ítarlegrar skoðunar.

Hér er um að ræða áhugamannafélag um skrímsli á Vesturlandi. Skrímsli hafa aldrei verið til á Íslandi og verða aldrei til á Íslandi. Engu að síður er verið að setja umtalsverða fjármuni í áhugamannafélag um skrímsli og það er einfaldlega verið að sóa fé almennings og fara illa með það. Það á að nýta það betur en að gera gys að almenningi með svona fjárveitingum,“ sagði Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar á Alþingi í dag, þegar greidd voru atkvæði um frumvarp til fjárlaga.

Í tilkynningu frá Hreyfingunni kemur fram að óheppilega sé að málum staðið þegar kemur að ákveðnum þáttum fjárlaga og fjárlagagerðar.  Einstakir þingmenn í fjárlaganefnd taki ákvarðanir um einstakar fjárúthlutanir og verkefni.  Það bjóði heim hættu á kjördæmapoti og sé ófaglegt.  Mun heppilegra væri að veita fénu í til þar til gerða sjóði eða fagráð sem gætu með ábyrgari hætti tekið ákvarðanir og forgangsraðað.  Í því fælist farsælli meðferð skattfjár almennings í landinu.

Þingmenn Hreyfingarinnar vilja ítreka að með málflutningi sínum séu þeir ekki að gera atlögu að landsbyggðinni heldur ófaglegum úthlutunum á fjármunum almennings.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert