Upphæð vasapeninga lækkar ekki

Félagsmálaráðuneytið tekur fram, að upphæð vasapeninga til aldraðra á stofnunum verður ekki lækkuð árið 2010 þótt fjárframlag á fjárlögum fyrir næsta árs vegna vasapeninganna lækki í fjárlögum næsta árs miðað við fjárlög þessa árs. Óskertir vasapeningar eru 41.895 krónur á mánuði.

Tillga frá meirihluta fjárlaganefndar um að lækka vasapeninga aldraðra úr 352 milljónum í 317 milljónir á næsta ári sætti harðri gagnrýni stjórnarandstæðinga. Félagsmálaráðuneytið segir í tilkynningu, sá misskilningur virðist hafa orðið, að ákveðið hafi verið að lækka fjárhæð vasapeninga til einstaklinga. Þetta sé ekki rétt heldur stafi lækkun heildarútgjalda af því að með vaxandi lífeyrisréttindum fækkar stöðugt í hópi aldraðra sem eru tekjulausir og fái þess vegna greidda vasapeninga.

Á fjárlögum þessa árs hafi heildarútgjöld vegna vasapeninga verið ofmetin og hefur það verið leiðrétt í fjárlögum ársins 2010. Gert var ráð fyrir um 500 milljónum króna á fjárlögum 2009 vegna þessa liðar.

Árið 2007 voru vasapeningar einstaklinga kr. 28.591 á mánuði og hafa þeir því hækkað um 47% frá þeim tíma, að sögn ráðuneytisins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert