Lagalegur vafi og ágreiningur um Icesave

Háværar deilur eru enn um Icesave-frumvarpið sem afgreitt var úr fjárlaganefnd í gær. Breska lögmannsstofan Mishcon de Reya telur greinilegan vafa leika á því hvort íslenska ríkinu beri lagaleg skylda til að greiða lágmarkstryggingu vegna Icesave-reikninganna.

Lárus L. Blöndal hrl. segir lögmannsstofuna staðfesta gagnrýni þeirra Stefáns Más Stefánssonar lagaprófessors. Óvarlegt sé að samþykkja ríkisábyrgðina, sem myndi höggva nærri fullveldi Íslands.

Fleiri lögfræðingar telja álitið staðfesta gagnrýni á Icesave-samninginn. Ragnar Hall hrl. segir álitið staðfesta að fyrirvari sem kenndur er við Ragnar sé orðinn verulega útþynntur. Það geti skapað ríkinu hundraða milljarða kostnaðarauka. Sigurður Líndal lagaprófessor segir að sér sýnist að álitið staðfesti gagnrýni hans á samninginn.

Á vettvangi stjórnmálanna var einnig hart deilt um Icesave-málið í gær. Framsóknarmenn og Sjálfstæðismenn telja að meirihlutinn hafi, með því að vísa málinu úr fjárlaganefnd, brotið gegn samkomulagi við minnihlutann. Enn sé eftir að fara yfir ný gögn, svo sem áhættumat frá IFS-greiningu og nýtt mat Seðlabankans um að Íslendingar skuldi 5.150 milljarða.

Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, segir hins vegar að farið hafi verið yfir öll þau atriði sem stjórnarandstaðan óskaði eftir. Tími sé kominn til að taka ákvörðun, enda sé málið komið í hringi og farið sé að kalla eftir upplýsingum sem þegar hefur verið farið yfir.

Sjá nánar ítarlega umfjöllun um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert