Nauðsynlegt að samþykkja Icesave

Lokaumræða um Icesave-frumvarpið hefst á mánudag.
Lokaumræða um Icesave-frumvarpið hefst á mánudag. mbl.is/Heiðar

Meirihluti fjárlaganefndar segist telja nauðsynlegt að ljúka Icesave-málinu með því að samþykkja óbreytt fyrirliggjandi frumvarp um ríkisábyrgð vegna lánasamninganna við Breta og Hollendinga.

Þetta kemur fram í áliti meirihluta nefndarinnar, sem dreift var á Alþingi í dag en fjárlaganefnd afgreiddi frumvarpið frá sér til þriðju umræðu í gær. Gert er ráð fyrir að þriðja umræða hefjist á Alþingi á mánudag.

„Ráða má af álitsgerðum bresku lögmannsstofanna Ashurst og Mishcon de Reya að verði frumvarpinu hafnað geti það leitt til ráðstafana af hálfu breskra og hollenskra yfirvalda sem óvíst er hvernig ljúki. Frekari gögn hafa verið lögð fram á fyrri stigum þessa máls sem hníga í þessa sömu átt. Hinar efnahagslegu og pólitísku afleiðingar sem það hefði í för með sér myndi hægja mjög á endurreisn íslensks efnahagslífs með enn meiri og alvarlegri afleiðingum en þegar hafa orðið vegna efnahagshrunsins," segir í áliti nefndarmeirihlutans.

Fram kemur einnig, að Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs, skrifar undir nefndarálitið með fyrirvara. Hann lýsti því yfir við 2. umræðu um málið á Alþingi, að hann ætlaði að taka afstöðu til frumvarpsins eftir lokaumfjöllun í fjárlaganefnd.

Álit meirihluta fjárlaganefndar  
  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert