Fréttaskýring: Undarlega lítill kraftur

Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi.
Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir á Alþingi. Árni Sæberg

„Það er undarlegt að það hafi ekki verið settur meiri kraftur í viðræður. Þegar Icesave-málið var samþykkt á Alþingi sagði forsætisráðherra að Íslendingar þyrftu að beita öllum sannfæringarkrafti til að vinna málinu brautargengi erlendis,“ segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ræddi Icesave við norræn starfssystkin sín í október, við fulltrúa AGS nýverið og við þjóðarleiðtoga á loftslagsráðstefnu SÞ í sl. viku. Þetta kemur fram í skriflegu svari ráðherrans við fyrirspurn Ragnheiðar Elínar á Alþingi.

Þingmaðurinn spurði forsætis-, utanríkis- og fjármálaráðherra hve marga fundi, símtöl og samtöl þeir eða fulltrúar þeirra hefðu átt við erlenda aðila og þá hverja um Icesave-málið frá því að lög um ríkisábyrgð voru samþykkt í lok ágúst. Jafnframt var spurt hvaða gögn lægju fyrir eftir fundina og hvort til stæði að birta þau.

Fundargerðir ekki skráðar

Í svari forsætisráðherra kom fram að fundargerðir hefðu ekki verið skráðar og aðstæður réðu hvaða punktum væri haldið til haga. Ekki stæði til samkvæmt hefðinni að birta slík gögn enda græfi slíkt undan trausti í samskiptum þjóða.

Utanríkisráðherra greinir frá því að hann hafi fundað um Icesave með 21 evrópskum utanríkisráðherra, þremur þjóðhöfðingjum og þrettán sendiherrum.

Ragnheiður Elín segir að sér þyki klént að bera því við að ekki sé hægt að birta punkta sem liggja fyrir eftir fundi vegna málsins. Eftir hrunið hafi fulltrúar flokka sem nú eru í ríkisstjórn gert kröfu um að allt yrði dregið fram í dagsljósið. Í því ljósi sé því ódýrt að vísa til hefða. Verði að gera kröfu til ráðamanna um að standa við stóru orðin. Þá sé spurning hvers vegna málið hafi verið tekið upp á fundinum í Kaupmannahöfn þar sem samningar við Breta og Hollendinga séu í höfn að mati ríkisstjórnarinnar með frumvarpinu sem liggur fyrir á Alþingi.

Ragnheiður Elín Árnadóttir á Alþingi.
Ragnheiður Elín Árnadóttir á Alþingi. mbl.is/Eggert
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert