Allar gjaldeyristekjur duga ekki

Samkvæmt upplýsingum af skuldatryggingamarkaðnum og útreikningum erlends greiningarfyrirtækis eru fjórðungslíkur á greiðslufalli ríkisins. Þetta er umtalsvert hærra en þær líkur sem IFS-greining nefnir í skýrslu sem unnin var fyrir fjárlaganefnd Alþingis.

Samkvæmt áhættumati sem IFS vann eru um það bil 10% líkur á greiðslufalli ríkissjóðs. Það byggist á forsendum um efnahagsþróun á Íslandi, en fram kemur í mati IFS að um það bil 5% líkur séu á meira en 15% samdrætti í verðmæti útflutningsafurða landsins.

Útflutningur hefur minnkað um 30% á fyrstu níu mánuðum þessa árs, og jafnframt segir að einhvern tíma muni taka fyrir íslenska hagkerfið að bregðast við lægra raungengi með því að tileinka sér fjölbreyttari atvinnuvegi.

Líkur á greiðslufalli svipaðar og hjá Dúbaí

Samkvæmt upplýsingum frá greiningarfyrirtækinu CMA var skuldatryggingaálagið á íslenska ríkið 413 punktar í gær. CMA reiknar einnig út líkurnar á greiðslufalli miðað við þróun skuldatrygginga og annarra þátta og samkvæmt því eru líkurnar á greiðslufalli Íslands um 25%. Þetta er hátt hlutfall og í samanburði má nefna að líkurnar á greiðslufalli furstadæmisins Dúbaí um þessar mundir eru taldar vera um 27% og líkurnar á að gríska ríkið standi ekki í skilum eru sagðar 22%.

Áhættumat IFS byggist á því að allar gjaldeyristekjur fari í að greiða niður erlendar skuldbindingar. „Gjaldeyristekjur munu ekki nægja til að greiða niður erlend lán fyrstu árin eftir að afborganir Icesave-samningsins hefjast og myndi erlend skuldastaða fara vaxandi þrátt fyrir að allar gjaldeyristekjur væru nýttar til að greiða af erlendum lánum,“ segja sérfræðingar IFS. Í mati IFS er gert ráð fyrir 90% endurheimtum á eignum Landsbankans.

Í hnotskurn
» IFS-greining reiknar með að 10% líkur séu á greiðslufalli ríkissjóðs. Samkvæmt greiningarfyrirtækinu CMA eru þessar líkur þó 25%.
» Í mati IFS kom fram að þrátt fyrir að allar gjaldeyristekjur landsins yrðu notaðar í greiðslu á erlendum skuldum yrði Icesave-skuldbindingin þjóðarbúinu engu að síður of þungbær.
» Taka mun tíma að byggja upp fjölbreyttari útflutningsatvinnuvegi í umhverfi lægra raungengis en síðastliðin ár. Útflutningur dróst saman um tæplega þriðjung á fyrstu níu mánuðum ársins.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert