Steingrímur segist hafa tekið við af búskussa

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra. Heiðar Kristjánsson

„Því verkefni sem við, ásamt samstarfsflokki okkar í ríkisstjórn, tókum að okkur í febrúar síðastliðnum má líkja við starf bónda sem tekur við býli í órækt og niðurníðslu. Á bænum er allt í upplausn, því fráfarandi búskussi taldi sig geta dvalið í kaupstaðnum á meðan býlið sæi um sig sjálf.“ Þetta segir í jólakveðju Steingríms J. Sigfússonar, formanns Vinstrihreyfingarinnar, til flokksmanna sinna.

Steingrímur segir að aðrir hafi líkt verkefni ríkisstjórnarinnar við rústabjörgun eftir landskjálfta og enn aðrir við björgun á strandstað. „Hvað sem samlíkingum líður er starfið augljóslega ekki auðvelt, tæpast öfundsvert en um leið óendanlega mikilvægt. Á meðan á því stendur er mikilvægt að halda einbeitingunni, missa ekki sjónar á takmarkinu né trúna á að verkið heppnist. Takist það munum við og samfélagið allt uppskera ríkulega.“

Steingrímur segir að þó að árið hafi vissulega verið erfitt og mikil barátta sé enn framundan megi ekki missa sjónar á hinu heldur sem hefur áunnist. Hann nefnir þar nýju tekjuskattskerfi sem dreifi „byrðunum á allt annan og réttlátari hátt en skattkerfi frjálshyggjunnar gerði. Það þurfti Vinstrihreyfinguna – grænt framboð til.

Af mörgu öðru er að taka. Þar má nefna hærri grunframfærslu námslána, skýra og metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum, kaup á vændi hafa verið bönnuð, lög sem bæta stöðu sprotafyrirtækja hafa verið samþykkt, varnarmálastofnun verður lögð niður á næsta ári, allt lagaumhverfi fjármálamarkaðarins verður endurbætt, rannsókn á aðdraganda hrunsins hefur verið stórefld, m.a. með aðkomu Evu Joly.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert