Íslendingar halda jól með Obama

Anna Soffía ásamt eiginmanni sínum og sonum með Obama á …
Anna Soffía ásamt eiginmanni sínum og sonum með Obama á jóladag

 „Þau voru virkilega yndisleg og með góðan húmor," segir Anna Soffía Ryan sem ásamt fjölskyldu sinni borðaði hádegismat með Barack og Michelle Obama á jóladag. „Þórarinn yngri sonur okkar var í jakkafötum með vasaklút og Obama var rosalega hrifinn af honum, hrósaði fötunum hans og sýndi Michelle hvað hann væri flottur."

Anna Soffía er búsett á Kailua á Hawaí ásamt eiginmanni sínum, John Michael Ryan, og tveimur sonum, þeim William Patrick og Þórarinn Edward. Forsetahjónin mættu þar til jólamáltíðar til heiðurs hermönnum, en eiginmaður Önnu Soffíu er einmitt hermaður. „Obama gekk á milli borða og spjallaði við menn. Á næsta borði við okkur var hermaður sem tók ekki eftir honum svo hann sagði við hann „fyrirgefðu, mér þykir leitt að vera að trufla þig," og þá spratt hermaðurinn upp þegar hann sá hver þetta var," segir Anna og lýsir Obama sem alþýðlegum og skemmtilegum manni.

„Hann var líka að stríða öðrum hermanni á því að það skaðaði nú ekki að borða aðeins meira grænmeti með jólamatnum. Svo þegar hann kom og talaði við okkur missti yngri sonur okkar lit á gólfið og Obama beygði sig niður og rétti honum aftur. Það hefðu ekki allir gert það."

Michelle forvitin um jólasveinana 13

Fyrir Önnu Soffíu er nýjabrumið reyndar alveg farið af Obama því þetta er í annað skipti sem hún borðar jólamáltíð með honum á Hawaí. „Við reynum að halda í báðar hefðir, íslensku og amerísku, og höfum jólamatinn á aðfangadagskvöld en förum eftir hádegi á jóladag og borðum með hernum og Obama kom þangað líka í fyrra." Á annan í jólum fór fjölskyldan saman að spila mínigolf og deildu þá vellinum með Obama fjölskyldunni, og fjölda lífvarða.  

Hún segir forsetafrúna vera yndislega konu eins og orð fer af henni og hún hafi spjallað við strákana hennar um hvað þeir hafi fengið frá jólasveininum. „Ég sagði henni að við værum frá Íslandi og þar væru 13 jólasveinar svo þetta væri svolítið flókið fyrir þá og henni fannst það  merkilegt."

Þeir Þórarinn og William voru örlítið feimnir við forsetahjónin en gerðu sér þó ekki grein fyrir hver þau væru. „Við vorum að reyna að útskýra fyrir þeim að þetta væri svolítið merkilegur maður sem væri oft í sjónvarpinu," segir Anna Soffía. Hún lætur vel af jólunum á Hawaí og segir heimamenn stolta af því að forsetinn kjósi að heimsækja æskuslóðirnar um jólin. Honum fylgi þó mikil öryggisgæsla auk þess sem óvenjumargir taki með sér myndavélar á ströndina þessa dagana, sennilega í von um að sjá til forsetans.

Á Hawaí er nú um 25 stiga hiti og þótt fjölskylda Önnu Soffíu líki lífið þar vel er greinilegt að íslenskur uppruni segir til sín hjá sonunum tveimur um jólin. „Í gær vildi strákurinn okkar endilega búa til snjókarl því það væru jól. Við urðum að gera eitthvað fyrir hann svo við fórum niður á strönd og bjuggum til snjókarl úr sandi!"

Michella og Barack Obama heilsa upp á Önnu Soffíu og …
Michella og Barack Obama heilsa upp á Önnu Soffíu og Þórarinn son hennar, en Obama hjónin voru afar hrifin af sparifötunum hans.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert