Vilja kynna málstað Íslands betur

Frá Alþingi
Frá Alþingi mbl.is/Heiðar

Stjórn Heimdallar sendi í dag frá sér opið bréf til allra þingmanna vegna Icesave-málsins þar sem er skorað á þingmenn að fylgja sannfæringu sinni þegar greidd eru atkvæði um málið. Sú „lágmarkskrafa" er gerð til þingmanna sem ætla að greiða atkvæði með frumvarpinu að þeir hafi vissu og sannfæringu fyrir því að íslensk stjórnvöld hafi gert allt sem í þeirra valdi stendur til þess að kynna málsstað Íslands út á við og að samningurinn sem fyrir liggur gæti hagsmuna Íslands með eins ríkum hætti og mögulegt er.

Heimdellingar benda á að fundir með erlendum stjórnmálamönnum um Icesave-málið hafi verið fáir og ómarkvissir. Stjórnvöld hafi ekki ráðist í skipulega fundaherferð meðal evrópska þingmanna og stjórnmálamanna og því hafi skoðanir Breta og Hollendinga orðið ofan á en rödd Íslands ekki heyrst sem skyldi.  

Heimdellingar segja hugsanlegar afleiðingar þess að hafna samningnum vera ofmetnar. Engin ástæða sé til þess að gefa sér það fyrirfram að málsstaður Íslendinga, um að fá sanngjarnari samning og niðurstöðu um málið, njóti ekki samúðar út á við. Málið sé enn langt í frá ásættanlegt frá sjónarhóli Íslands enda sé öll áhætta og kostnaður Íslands megin.

„Margt hefur breyst á þeim tæplega 15 mánuðum sem liðnir eru frá því að bankarnir þrír hrundu í október 2008. Óvissuástandið sem ríkti þá á ekki við lengur," segja Heimdellingar. Miklir möguleikar séu á að koma málsstað Íslands betur á framfæri og leggja grunninn að hagstæðari niðurstöðu fyrir þjóðina. Um langtímahagsmuni hennar sé að ræða og málið snúist því ekki um „að vinna pólitíska sigra heima fyrir heldur að kjörnir fulltrúar þjóðarinnar komi saman allir sem einn á ögurstundu. Sú stund er runnin upp."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert