Sérstök þingnefnd verður kosin

Þingmenn samþykktu að skipa sérstaka þingmannanefnd til að fara yfir …
Þingmenn samþykktu að skipa sérstaka þingmannanefnd til að fara yfir niðurstöður skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. mbl.is/Kristinn

Alþingi samþykkti í dag frumvarp forsætisnefndar þingsins um að skipuð verði 9 manna þingmannanefnd til að fara yfir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og móti viðbrögð Alþingis við niðurstöðum rannsóknarnefndarinnar. Frumvarpið var samþykkt með 41 atkvæði en 3 þingmenn Hreyfingarinnar sátu hjá.

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður allsherjarnefndar þingsins, sagðist hafa lagt mikla áherslu á að ná samstöðu um málið milli þingmanna eftir að frumvarpið kom til nefndarinnar. Hún sagðist trúa því enn, þrátt fyrir gagnrýni þingmanna Hreyfingarinnar á málið, að fulltrúi flokksins muni starfa í þingmannanefndinni af trúverðugleika og að full samstaða sé um að vanda vel til verka.

Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, gagnrýndi frumvarpið og sagði það ekki nógu afgerandi um hvað þingmannanefndin ætti að gera og þar af leiðandi væri það ótrúverðugt. Þá sagði hann, að þingmannanefndin ætti að fá allt of langan tíma, 9 mánuði, til að komast að niðurstöðu.

Þór sagði að reynslan sýndi að Alþingi væri ekki vel til þess fallið að fjalla um hluti sem snúa að því sjálfu og frumvarpið yrði ekki til að auka veg Alþingis. Sagði hann að þingmenn hreyfingarinnar legðu mikla áherslu á að lokað sé á á möguleika þingmannanefndarinnar að tefja framgang málsins eða sópa skýrslu rannsóknanefndarinnar undir teppið.

Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, tók upp þykkjuna fyrir Alþingi og mótmælti því að  talað væri niður til þingsins og þingmanna með þeim hætti sem Þór gerði. „Hér gefur Hreyfingin þingmönnum puttann og ég neita að sitja undir því," sagði Siv. 

Hún gagnrýndi einnig þau ummæli Þórs að hætta væri á að þingmannanefndin skilaði einhverri froðu um verslunarmannahelgina. „Hér erum við að vanda til verka og ná samstöðu um mikilvægt mál og þá kýs Hreyfingin að grafa undan öllu trausti sem við erum að byggja upp og ég mótmæli því."

Þingmenn Hreyfingarinnar lögðu fram ýmsar breytingartillögur við frumvarpið, sem voru allar felldar með 41 atkvæði gegn 3. Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sagði að ekki stæði steinn yfir steini í tillögum flokksins enda hefði öðrum þingmönnum misboðið málflutningur Hreyfingarinnar.

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarnnar, sagði að frumvarpið væri skref í þeirri siðferðilegu endurreisn, sem þurfi að eiga sér stað hér á landi. „Alþingi verður að ganga gegnum þennan hreinsunareld. Aðeins þannig náum við að byggja upp traust þjóðarinnar á þessari stofnun," sagði Þórunn. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert