Felldu tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu

Þingmenn á Alþingi í kvöld.
Þingmenn á Alþingi í kvöld. mbl.is/Ómar

Alþingi felldi naumlega með  breytingartillögu frá Pétri H. Blöndal, þingmanni Sjálfstæðisflokks, um að ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna taki ekki gildi fyrr en að hún hafi verið samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ásmundur Einar Daðason og Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmenn VG, studdu tillöguna.

Tillagan var felld með 33 atkvæðum gegn 30.

Ásmundur Einar sagði, að ef tillagan væri felld myndi hann ganga inn í hliðarherbergi og skrá nafn sitt á vefsíðu InDefence þar sem skorað er á forseta Íslands að synja Icesave-lögunum staðfestingu og láta þannig fara fram þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Sagðist Ásmundur Einar hvetja alla landsmenn að gera slíkt hið sama. 

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður VG, sagði það sína niðurstöðu að Alþingi kæmist ekki lengra með Icesave-málið. Um leið sagðist hún fagna þessari breytingartillögu og styðja hana. 

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokks, sagðist skora á forseta Íslands að standa með þjóðinni en ekki ríkisstjórninni í þessu máli.

Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagðist styðja tillöguna að vel athuguðu máli því þjóðin yrði að fá að segja álit sitt á þessu frumvarpi.

Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að ekki væri hægt að styðja tillöguna vegna þess að þingið yrði að hafa kjark til að sinna skyldum sínum við þjóðina og taka þessa erfiðu ákvörðun. „Til þess erum við kjörin," sagði Ólína.   

Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði, að tillaga Péturs væri hræsni enda hefðu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur ítrekað fellt tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur á fyrri þingum.

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, sagðist ekki greiða tillögunni atkvæði og ekki heldur öðrum breytingaritillögum. Hann sagðist heldur ekki styðja Icesave-frumvarpið. Málið kæmi síðan til kasta forseta Íslands.   

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert