Fréttir af samþykkt Icesave berast víða

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, í atkvæðagreiðslunni um …
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, og Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, í atkvæðagreiðslunni um Icesave-frumvarpið í gærkvöldi. mbl.is/Ómar

Fréttir af samþykkt Icesave-frumvarpsins á Alþingi á tólfta tímanum í gærkvöldi bárust hratt út um heimsbyggðina og sögðu helstu fréttaveitur heims frá niðurstöðunni strax og hún lá fyrir. Í nótt og morgun hefur fréttin birst í fjölmiðlum í flestum nágrannalöndum Íslands og einnig í Ástralíu, Indlandi og Malasíu svo dæmi séu tekin.

AFP fréttastofan sagði, að einn þingmaður hefði hrópað: Til hamingju Ísland, þegar niðurstaðan lá fyrir, en annar hefði hrópað: Landráð. 

Samkvæmt frumvarpinu, sem samþykkt var í gærkvöldi, ábyrgist íslenska ríkið skuldbindingar Tryggingasjóðs innistæðueigenda vegna greiðslna til breskra og hollenskra innistæðueigenda á Icesave-reikningum Landsbankans. Heildarfjárhæðin nemur nærri 700 milljörðum króna en gert er ráð fyrir því að eignir Landsbankans í þessum löndum gangi upp í skuldina. 

Frumvarpið verður lagt fyrir forseta Íslands til staðfestingar á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert