Talandi kýr og selir úr ham

Ýmsar kynjaverur fara á stjá á áramótum samkvæmt gamalli íslenskri hjátrú enda hefur myrkrið sem ævinlega grúfir yfir landinu á árslok sennilega verið ágætis fóður fyrir fjörugt ímyndunarafl fyrir tíma raflýsingar og götuljósa.

Þá sátu menn á krossgötum til að hitta á álfa í flutningsstússi og sumir undirbjuggu sig sérstaklega heimavið fyrir heimsóknir af öðrum heimi.

Einn hlutur á Þjóðminjasafni Íslands tengist þessari álfatrú sérstaklega, örlítill koparpottur sem talinn er vera frá 15. öld og sagður er hafa verið í eigu álfa sem áttu leið um landareign bónda nokkurs á Litla-Garði í Dýrafirði á gamlárskvöld.  Lítið álfabarn mun hafa hent frá sér álfapottinum þegar það var að flýta sér eftir mömmu sinni að bóndanum aðsjáandi.

Í gamla bændasamfélaginu var áramótunum helst fagnað með því að gera vel við sig í mat og drykk, en á seinni hluta nítjándu aldar tóku nemar við Hólavallaskóla í Reykjavík upp á því að efna til sérstakrar áramótabrennu og hefur sá siður haldist. Flugeldadýrðin, sem er eitt helsta kennileiti áramótafagnaðarins í dag varð ekki almenn fyrr en á seinni hluta tuttugustu aldar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert