Fólk hvatt til að mæta Bessastaði

Bessastaðir á Álftanesi, bústaður forseta Íslands.
Bessastaðir á Álftanesi, bústaður forseta Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Alls hafa tæplega 57 þúsund einstaklingar undirritað áskorun til forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, að að synja nýjum Icesave lögum staðfestingar.  Liðsmenn InDefence ætla að afhenda Ólafi Ragnari undirskriftirnar á Bessastöðum klukkan 11 í fyrramálið og hvetja fólk til að mæta þangað. Undirskriftasöfnunin verður opin þar til forseti hefur tilkynnt ákvörðun sína.

„Íslendingar eru hvattir til að koma á Bessastaði með fjölskylduna til að sýna forseta Íslands stuðning og til að sýna alþjóðasamfélaginu samhug okkar í verki.

InDefence hópurinn óskar þess að athöfnin fari fram á virðulegan hátt, eins og hæfir tilefninu. Afhendingin er ekki vettvangur fyrir mótmæli af neinu tagi.
Fyrir afhendingu undirskriftanna verður sungið eitt ættjarðarljóð og að því loknu kveikt á blysum.

Til að forðast umferðarteppu er fólk hvatt til að leggja bílum sínum fjarri Bessastöðum og safnast saman við afleggjarann fyrir kl. 10:30," að því er segir í tilkynningu frá InDefence.

Hér er hægt að fara á vef InDefence

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert