Fylgst með ákvörðun forsetans

Breskir fjölmiðlar fjalla í dag um þá ákvörðun sem bíður forseta Íslands þegar kemur að afgreiðslu Icesave-samningsins, sem Alþingi samþykkti að veita ríkisábyrgð á þann 30.desember síðastliðinn.

Á vefsíðu Telegraph segir að inngrip forsetans í samþykkt löggjafarinnar gæti hrundið að stað deilu milli Bretlands og Íslands, en afgreiðsla málsins hafi tekið 18 mánuði í heild. Jafnframt er nefnt að forsetinn hafi einu sinni áður synjað lögum staðfestingar, en þar er vísað til fjölmiðlafrumvarpsins sem Ólafur Ragnar ákvað að skjóta til þjóðaratkvæðis árið 2006.

Telegraph greinir frá undirskriftasöfnun InDefence, en tæplega 55.000 manns hafa nú undirritað áskorun til forsetans þess efnis að synja ríkisábyrgð á Icesave-samningnum staðfestingar.

Talsmaður breska fjármálaráðuneytisins hefur sagt að samþykkt Icesave-samningsins muni hjálpa Íslandi við að öðlast trúverðugleika á alþjóðlegum vettvangi á ný og geta einbeitt sér að efnahagsbata á ný.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert