Kannast ekki við fjöldapóst

InDefence hópurinn á tröppum Bessastaða.
InDefence hópurinn á tröppum Bessastaða. Ómar Óskarsson

Indefence hópurinn hefur ekki sent alþingismönnum sem greiddu ríkisábyrgð á Icesave atkvæði fjöldapóst um að kjósa þá ekki, að sögn Eiríks S. Svavarssonar, talsmanns InDefence. Ólína Þorvarðardóttir alþingismaður fullyrðir í bloggi að hópurinn hafi staðið fyrir slíkum tölvupóstsendingum til þingmanna.

Ólína segir að texti fjöldasendinganna, sem hún segir að séu frá Indefence hópnum, sé staðlaður: „Ég kýs þig ekki, þú kaust með Icesave.“ Þá hafi sumir kosið að hnýta við „andstyggilegum svívirðingum um landráð, föðurlandssvik og fleira ófagurt  í líkingu við munnsöfnuð nokkurra stjórnarandstæðinga í þinginu undanfarna mánuði.“

Eiríkur segir að InDefence hópurinn sé afar ósáttur við bloggfærslu Ólínu. „Þarna fer stjórnarþingmaður með helber ósannindi,“ sagði Eiríkur. „Okkur tekur þetta mjög sárt og finnst þetta fyrir neðan beltisstað. Við höfum kannað þetta í öllum okkar hópi, sem ekki er mannmargur. Það kannast enginn við að hafa sent neinum stjórnarþingmanni tölvupóst undanfarnar vikur.“

Eiríkur sagði að sér þætti alvarlegt að stjórnarþingmaður skuli nota þann öfluga miðil sem netið er til að fara með ósannindi um athafnir InDefence hópsins.  „Við hvetjum stjórnarþingmenn til að kynna sér málið á vefsíðunni indefence.is. Þar er mjög mikið af gögnum.“

Eiríkur nefndi að fleiri stjórnarþingmenn hafi viðhaft röng ummæli um InDefence hópinn. T.d. sé það alrangt, sem Björn Valur Gíslason varaformaður fjárlaganefndar fullyrti í fréttum, að InDefence hafi sagt að ekki eigi að borga Icesave.

Eiríkur sagði ekki útilokað að einhver eða einhverjir óprúttnir hafi sent alþingismönnum tölvupósta með hótunum í nafni InDefence. Hafi slík bréf borist þingmönnum þá sé undirskrift InDefence hópsins fölsuð.

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.
Eiríkur Svavarsson afhendir Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, hluta undirskrifta …
Eiríkur Svavarsson afhendir Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, hluta undirskrifta InDefence. Ómar Óskarsson
Margir komu til Bessastaða þegar undirskriftir InDefence voru afhentar í …
Margir komu til Bessastaða þegar undirskriftir InDefence voru afhentar í gær. mbl.is/RAX
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert