Blaðamannafundur í fyrramálið

Ólafur Ragnar Grímsson ræðir við blaðamenn á Bessastöðum á gamlársdag …
Ólafur Ragnar Grímsson ræðir við blaðamenn á Bessastöðum á gamlársdag eftir ríkisráðsfund. mbl.is/Ómar

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, boðaði nú síðdegis til blaðamannafundar á Bessastöðum á morgun klukkan 11. Ekki er tekið fram hvert fundarefnið er en væntanlega mun Ólafur Ragnar þar kynna niðurstöðu sína um Icesave-lögin.

Lög um ríkisábyrgð vegna Icesave-skuldbindinganna voru samþykkt á Alþingi á miðvikudagskvöld 30. desember. Morguninn eftir, á gamlársdag, lagði Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, til á ríkisráðsfundi að forsetinn staðfesti lögin. Ólafur Ragnar lýsti því þá yfir, að hann myndi ekki taka afstöðu til tillögunnar á ríkisráðsfundinum þar sem aðeins um hálfur sólarhringur væri liðinn frá því Alþingi samþykkti málið og gefin hefðu verið fyrirheit um að forseti tæki við undirskriftum sem safnað hefði verið á netinu. Þá hefði forseti einnig hlýtt á ummæli alþingismanna við afgreiðslu málsins.

2. janúar tók Ólafur Ragnar á móti fulltrúum InDefence-samtakanna, sem afhentu honum rúmlega 56 þúsund undirskriftir undir áskorun um að synja lögunum staðfestingu. Í gær, 3. janúar, átti Ólafur Ragnar fundi með Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, á Bessastöðum. Fundirnir voru sitt í hvoru lagi, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins, en ekki hefur verið upplýst um efni fundanna. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna hafa ekki verið boðaðir til slíkra funda.

Aldrei hefur liðið jafn langur tími frá því forseti fær í hendur lög frá Alþingi og þar til hann kynnir ákvörðun sína um hvort hann staðfestir eða synjar lögunum. Eitt dæmi er um það í sögu lýðveldisins, að forseti Íslands hafi synjað lögum staðfestingar. Það var árið 2004 þegar Ólafur Ragnar staðfesti ekki fjölmiðlalögin svonefndu en þá leið einn sólarhringur frá því forsetinn fékk lögin í hendur þar til hann tilkynnti ákvörðun sína.

Samkvæmd dagskrá forsetans í þessari viku átti hann að halda utan til Indlands á miðvikudag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert