Gefur sér að forsetinn synji

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. mbl.is/Ómar

„Klukkan ellefu í dag greinir forseti Íslands frá rangri ákvörðun sinni varðandi ríkisábyrgð á láni til tryggingasjóðs innistæðueigenda. Það er samt alveg ástæðulaust að hrökkva af hjörunum vegna þess," skrifar Karl Th. Birgisson á vefsíðuna Herðubreið.is í morgun.

Í því samhengi vísar Karl í neðanmálsgrein til þess að hann gefi sér það að forsetinn synji lögunum staðfestingar. Auðvitað óski hann þess að forsetinn geri það ekki, en það væri fullkomlega óskiljanlegt eftir atburðarás síðustu daga.

„Margt má um Ólaf Ragnar Grímsson segja, en hann er hvorki vitlaus né óábyrgur. Hann gerir sér grein fyrir því, að ákvörðun eins og þessi þarf að vera alveg sérstaklega vel rökstudd og að hún getur haft fordæmisgildi langt inn í framtíðina. Hann gerir sér líka mætavel grein fyrir hugsanlegum pólitískum afleiðingum gerða sinna," skrifar Karl.

Hver rökstuðningurinn verður sé Karli hins vegar gersamlega hulið, því að forsetinn hafi þegar staðfest lög um ríkisábyrgð vegna Icesave. Síðan þá hafi aðeins tvennt breyst. Fáeinir fyrirvarar hafi tekið breytingum og undirskriftasöfnun InDefence hafi sett mark sitt á málið, en hún sé um margt sérstök.

Grein Karls á vefnum Herðubreið.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert