Rökrétt ákvörðun forsetans

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Ómar

„Mér finnst ákvörðun forsetans vera rökrétt, honum hafa borist undirskriftir rúmlega fjórðungs kosningabærra manna í landinu, þar sem óskað er eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um hitamál sem brennur á þjóðinni. Fæ ekki séð hvernig hann hefði getað komast að annarri niðurstöðu,“ segir Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og fv heilbrigðisráðherra, um ákvörðun forsetans í morgun.

„Nú er bara eitt að gera fyrir stjórnvöld, að hefja undirbúning að þjóðaratkvæðagreiðslu hið allra fyrsta og stuðla að því að hún fari fram. Ég er eindregið á þeirri skoðun að ríkistjórnin sitji áfram, og það gildir hver svo sem niðurstaðan verður í þjóðaratkvæðagreiðslunni,“ segir Ögmundur

Hann segir ríkisstjórnina hafa verið myndaða til varnar velferðar í efnahagsþrengingum. Þrátt fyrir gagnrýni á Icesave sé ríkur vilji fyrir því í landinu að stjórnin haldi áfram. „Hún á ekki að láta þetta trufla sig á nokkurn hátt. Í framtíðinni munum við hafa þennan hátt á í fleiri málum en verið hefur og hefði betur verið gert oftar á síðustu árum,“ segir Ögmundur og nefnir þar mál eins og Kárahnjúkavirkjun, kvótakerfið og umdeildar einkavæðingar á liðnum áratugum.

Atkvæðagreiðsla alltaf til góðs

„Þjóðaratkvæðagreiðsla og lýðræðisleg umræða er alltaf til góðs, ég hef alltaf verið því fylgjandi, sem og Vinstri hreyfingin grænt framboð sem lofaði kjósendum sínum í síðustu kosningum að reyna að koma á slíku fyrirkomulagi eins og oft sem auðið er.“

Ögmundur segir að forseti Íslands hafi brugðist við afgerandi lýðræðislegum vilja og í samræmi við það sem stjórnarflokkarnir hafa sett fram sem sínar áherslur í lýðræðisvakningu þjóðarinnar. Allir eigi að geta vel við unað. „Ég hvet til þess að menn andi rólega og taki þessu sem eðlilegum hlut.“

Aðspurður um þann möguleika að ríkisstjórnin ákveði að draga lögin til baka sem samþykkt voru um ríkisábyrgð á Iceave skömmu fyrir áramót, segist Ögmundur ekki ætla að fullyrða um. Slík ákvörðun árið 2004 varðandi fjölmiðlalögin hafi verið umdeild. „Þá töldu ýmsir að þar sem forsetinn hefði synjað lögunum staðfestingar ætti þjóðin rétt á atkvæðagreiðslu. Það var réttur þeirra sem vildu samþykkja lögin. Ég var þeirrar skoðunar á þeim tíma að sú ríkisstjórn hefði ekki verið að gera rangt þegar hún dró lögin til baka. Hver niðurstaðan verður núna ætla ég ekki að dæma um," segir Ögmundur ennfremur.

„Ríkisstjórnin á að geta lifað góðu lífi, hef tekið svo djúpt í árinni að segja að hún hafi ekki leyfi til að fara frá útaf þessu máli. Það getur ekki verið ástæða að hverfa úr stjórnarráðinu þegar þjóðin er spurð álits á tilteknu máli, sem vitað er að þverpólitískar deilur eru um. Það er enginn áfellisdómur á ríkisstjórnina," segir Ögmundur Jónasson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert