Telur þetta leiða til sáttar meðal þjóðarinnar

Ólafur Ragnar Grímsson svarar spurningum fréttamanna á Bessastöðum í dag.
Ólafur Ragnar Grímsson svarar spurningum fréttamanna á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segist hafa djúpa sannfæringu fyrir því að þessi niðurstaða muni leiða til sáttar meðal þjóðarinnar þegar hún fær ákvörðunina í sínar hendur. Eins og fram hefur komið ákvað forseti Íslands að skrifa ekki undir Icesave-lögin sem samþykkt voru á Alþingi þann 30. desember sl.

Forseti Íslands ákvað á grundvelli 26. greinar stjórnarskrárinnar að vísa hinum nýju lögum til þjóðarinnar. Samkvæmt stjórnarskránni munu lögin engu að síður taka gildi og þjóðaratkvæðagreiðslan fara fram „svo fljótt sem kostur er“.

Aðspurður um hvaða áhrif þetta geti haft á ríkisstjórnarsamstarfið segir Ólafur Ragnar að hann telji ekki  að afstaða einstakra ráðherra eða ríkisstjórnar til ákvörðunar forseta geti orðið úrslitaatriði í slíkri niðurstöðu því þá væri í reynd verið að fela þeim völd yfir málskotsrétti forseta.

Ólafur Ragnar sagði á fundi með fréttamönnum að það hafi ekki haft nein áhrif á ákvörðun hans sú staðreynd að synjun forseta þurfi ekki endilega að þýða að lögin verði borin undir þjóðaratkvæði. En þegar Ólafur Ragnar neitaði að staðfesta fjölmiðlalögin 2004 ákvað ríkisstjórn Íslands að draga lögin til baka áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu kom. 

Forseti Íslands er á leið til Indlands til þess að taka á móti verðlaunum. Hann hefur ekki tekið ákvörðun um hvort þetta muni valda því að hann hætti við ferðalagið. Segir hann það sem skipti máli sé að ljúka þessu máli.

Aðspurður segist Ólafur Ragnar trúa því að lýðræðisríki eins og Bretland og Holland beri djúpa virðingu fyrir lýðræðislegum rétti þjóðar sem birtist í þjóðaratkvæðagreiðslum. Sem reyndar hafi farið fram í Hollandi og víða í Evrópusambandslöndum og eru þar eðlilegur þáttur í meðferð milliríkjasamninga innan ESB, að sögn Ólafs Ragnars.

Þar að auki taki lögin gildi samkvæmt stjórnarskrá Íslands og því hafi ekkert gerst með þessari ákvörðun hans sem ætti að gefa Bretum og Hollendingum tilefni til þess að bregðast við með neikvæðum hætti.

Forseti Íslands segist alltaf hafa haft bjargfasta trú á mætti lýðræðisins og mikilvægi þeirrar ábyrgðar sem hver og einn Íslendingur hefur með atkvæðisrétt sínum. Sem forseti hafi hann kynnst því í forsetakosningum þar sem allir Íslendingar sitja við sama borð.

Hann segist telja mikilvægt að endurreisnarstarfinu verði haldið áfram og er þeirrar skoðunar að farsæl og góð samvinna við aðrar þjóðir séu forsenda þess að Ísland geti náð árangri í endurreisninni. Hann telji hins vegar að það sé lýðræðislegur réttur þjóðarinnar að taka þátt í því að komast að niðurstöðu í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert