Íslendingar telja lánakjörin óviðunandi

Jón Daníelsson.
Jón Daníelsson. mbl.is/Júlíus

Jón Daníelsson, prófessor í fjármálum við London School of Economics, skrifar grein í breska blaðið Independent í dag þar sem hann útskýrir hvers vegna jafn mikil óánægja sé með Iceasave-samkomulagið á Íslandi og raun beri vitni.

Þar segir hann að Íslendingar hafi þegar fallist á að bæta Bretum og Hollendingum það tjón sem föllnu íslensku bankarnir ollu en þau samningskjör, sem séu nú í boði, séu óviðunandi í augum Íslendinga. Það sé ástæðan fyrir því að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ákvað í gær að vísa Icesave-lögunum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Jón segir, að Alþingi hafi í ágúst sett skilyrði fyrir að veita ríkisábyrgð vegna Icesave-lánanna, m.a. að takmarka endurgreiðslurnar við 6% af hagvexti og áskilja sér jafnframt rétt til að vísa því til dómstóla hvort Íslendingum beri yfirleitt að greiða skuldbindingar innistæðutryggingasjóðsins íslenska. Mikill meirihluti á Alþingi hafi samþykkt þessa skilmála en Bretar og Hollendingar hafi hafnað þeim. 

Í kjölfarið hafi útþynnt frumvarp verið samþykkt naumlega eftir harðar deilur og því frumvarpi hafi forsetinn nú hafnað. 

Aðrir þættir hafi einnig haft áhrif á Íslandi. Almennt sé talið, að Bretar og Hollendingar hafi beitt áhrifum sínum til að koma í veg fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn staðfesti frekari lánafyrirgreiðslu til Íslands og nýleg umsókn Íslendinga um aðild að Evrópusambandinu virðist einnig háð því að samið verði um Icesave. En þar sem meirihluti Íslendinga hafi ítrekað verið andvígur aðild að ESB og hugsanlega sé ekki þörf á lánum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hafi Íslendingar ekki brugðist vel við þessum þrýstingi.

Þá segir Jón að þótt upphæðin, sem Íslendingar ætli að endurgreiða, jafnvirði um 700 milljarða króna, virðist ekki há í augum Breta. En á Íslandi búi aðeins rúmlega 300 þúsund manns og upphæðin svari því til um 40 þúsund punda á fjölskyldu, jafnvirði 8 milljóna króna. Þá svari hún til þess að Bretar greiði yfir 40 milljarða punda á ári, um helming þeirrar fjárhæðar sem þarf til að reka breska heilbrigðiskerfið.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert