Meiri skilningur í gær og dag

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á Bessastöðum í dag.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á Bessastöðum í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sagði á blaðamannafundi á Bessastöðum í dag, að eftir því sem leið á gærdaginn og í dag hafa komið fram meiri skilningur í útlöndum á stöðu Íslands og jafnvel stuðningur. Þetta væri í raun það eina, sem komið hefði á óvart.

Þannig hefði hann verið í tveimur þáttum á BBC í morgun og hlustendum hefði verið gefið tækifæri til að hringja inn spurningar. Flestir þeirra sem hringdu lýstu yfir stuðningi við Íslands, að sögn Ólafs Ragnars.

Hann nefndi einnig leiðara Financial Times í morgun. Margir hefðu sagt að helst væri að óttast viðbrögð fjármálaheimsins en því væri mikilvægt að þetta höfuðblað skyldi lýsa yfir stuðningi við ákvörðun forsetans. 

Ólafur sagðist hafa á sunnudag setið á fundum með fjórum ráðherrum nánast allan daginn og hlýtt á röksemdir ráðherranna. Þess vegna hefði ekkert nýtt verið í skjölunum, sem send voru frá ráðuneytum á mánudag. Þessi skjöl hefðu ekki verið formleg bréf. Ólafur Ragnar sagðist ekki hafa verið búinn að móta skoðun sína á málinu þegar þarna var komið.

Forsætisráðherra sagðist síðan hafa rætt símleiðis við Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, klukkan 11 á mánudagskvöldi að hennar ósk. Þá hefði hann látið Jóhönnu vita, að enn væri verið að vinna að yfirlýsingu forsetans og þeirri vinnu hefði ekki lokið fyrr en um klukkan 10 á þriðjudagsmorgun, klukkustund áður en Ólafur las yfirlýsinguna á þriðjudag.

Hann sagði, að í sjálfu sér hefði verið mögulegt að hringja til oddvita ríkisstjórnarinnar þegar ákvörðunin lá fyrir en honum hefði þótt eðlilegra að þau sæju rökstuðning og málflutning sinn.  Ólafur Ragnar lagði hins vegar áherslu á að hann hefði átt mun ýtarlegri viðræður við stjórnvöld nú en þegar hann tók ákvörðun um að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar 2004.

Ólafur Ragnar sagði, að hinn lýðræðislegi vilji hefði legið fyrir með yfirlýsingum meirihluta þingmanna, þar á meðal fjögurra þingmanna Vinstri grænna, og undirskriftum fjórðungs atkvæðabærra Íslendinga. Hins vegar hefði mat stjórnvalda á hugsanlegum viðbrögðum við þeirri ákvörðun að vísa frumvarpinu, byggst á spádómum og mati og vangaveltum um hvað myndi gerast. Þegar valið stæði á milli lýðræðis og markaðar hlyti forsetinn að velja lýðræðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert