Fundur hafinn á Alþingi

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra las upp forsetabréf í upphafi þingfundar um …
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra las upp forsetabréf í upphafi þingfundar um að framhaldsfundur verði á Alþingi í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Alþingi kom saman nú kl. 10.30 til þess að ræða aðeins eitt mál, en það er frumvarp til laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. Reiknað er með því að frumvarpið verði að lögum fyrir dagslok en fundur getur staðið langt fram eftir kvöldi ef þörf krefur.

Til þess þarf að halda fjóra fundi á Alþingi og samþykkja a.m.k. þrjú afbrigði þar sem of stutt verður liðið frá því málið var lagt fram þar til umræður um það fer fram. Eftir fyrstu umræðu fer málið til umfjöllunar í allsherjarnefnd og þaðan síðan í aðra og þriðju umræðu fáist það samþykkt með afbrigðum.

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, mælti fyrir frumvarpinu um þjóðaratkvæðagreiðslu og fór jafnframt yfir tildrög atkvæðagreiðslunnar. Sagði hún brýnt að byrja undirbúning þjóðaratkvæðagreiðslunnar eins fljótt og hægt er og vísaði sérstaklega til utankjörfundaratkvæða.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að þjóðaratkvæðagreiðslan verði haldin í síðasta lagi 6. mars. Ragnar sagði þrjá laugardaga koma til greina fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu, en þeir eru 20. febrúar, 27. febrúar og 6. mars.

Fram kom í máli Rögnu að alls eru um 10 þúsund kosningabærir Íslendingar búsettir erlendis sem fá verða tækifæri og tíma til þess að kjósa utan kjörfundar. Verði þjóðaratkvæðagreiðslan haldin 20. febrúar gefist aðeins fjórar vikur fyrir utankjörfundaratkvæði, en sex vikur verði hún haldin 6. mars.

Ekki er í frumvarpinu gert krafa um lágmarksþátttöku landsmanna í komandi þjóðaratkvæðagreiðsluna. Eins og fram hefur komið er ráðgert að á kjörseðli verði borin upp eftirfarandi spurning: „Eiga lög nr. 1/2010, um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., sem Alþingi samþykkti en forseti synjaði staðfestingar, að halda gildi?“ En á kjörseðlinum verði tveir möguleikar á svari: „Já, þau eiga að halda gildi“ eða „Nei, þau eiga að falla úr gildi.“

Frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslu

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, mælir fyrir frumvarpinu á Alþingi í dag.
Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, mælir fyrir frumvarpinu á Alþingi í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert