Hætt við að umræðan skekkist

Pétur H. Blöndal segir Íslendinga ekki kunna að taka þátt …
Pétur H. Blöndal segir Íslendinga ekki kunna að taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslum. mbl.is

Hætt er við því að umræðan um hvort þjóðin eigi að samþykkja Icesave-lögin skekkist sökum þess að öflug hagsmunafélög og ríkisstjórnin leggjast á eitt um að lögin verði samþykkt, segir Pétur H. Blöndal þingmaður Sjálfstæðisflokks.

Pétur bendir á að fjársterk samtök á borð við ASÍ, BSRB, SA og SI hafi lýst yfir stuðningi við að lögin verði samþykkt. Hins vegar hafi einungis örfá samtök, á borð við InDefence, lýst sig andsnúin lögunum. Erfitt sé að sjá hvernig lítil samtök geti keppt í því áróðursstríði sem framundan er við fjársterk samtök atvinnurekenda og launþega.

Eins og sagt var frá í Morgunblaðinu í dag stendur til að dómsmálráðuneytið hafi milligöngu um að fá utanaðkomandi aðila til að sjá um að vinna kynningarefni vegna þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave-lögin.

Pétur bendir á að vandasamt sé að búa til hlutlaust efni þar sem rök með og á móti fái jafnt vægi. Því hefði jafnvel verið skynsamlegra að styrkja andstæðar fjöldafylkingar um tiltekna upphæð til að standa straum af því að kynna þeirra afstöðu til málsins. Jafnframt þyrfti þá að tryggja að fylkingarnar notuðu einungis þá upphæð til að kynna málstað sinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert