Stopp í Icesave-málinu þessa dagana

Utanríkisráðherra og fjármálaráðherra héldu áfram að ræða við sendiherra erlendra ríkja hér á landi og starfsbræður sína í útlöndum í gær, þó ekki í Bretlandi eða Hollandi. Að öðru leyti virtist í gær vera lítil hreyfing á Icesave-málinu, jafnt innan lands sem utan.

Steingrímur J. Sigfússon orðaði það þannig í samtali við Morgunblaðið að stjórnvöld í aðildarríkjum Icesave-deilunnar væru „í sambandi“, en engar viðræður ættu sér stað þessa dagana, hvorki formlegar né óformlegar.

Steingrímur hafði hins vegar fundað með sendiherrum fimm stórra ríkja hér á landi, sem öll eiga fastafulltrúa í stjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. „Við höfum verið að reyna að útskýra fyrir þeim stöðuna og leita stuðnings og skilnings á því að ekki standi á okkur að semja í málinu og allt sé í raun klárt af okkar hálfu,“ sagði Steingrímur.

Einnig hafði hann talað við fjármálaráðherra Póllands, Jan Vincent Rostowski. „Það var mjög gott samtal. Hann staðfesti það sem áður hefur komið fram, að lán þeirra sé ekki skilyrt neinu, nema bara endurskoðuninni sjálfri,“ sagði Steingrímur. Sem kunnugt er hafa stjórnvöld áhyggjur af því að næsta endurskoðun samstarfs AGS við Ísland frestist vegna Icesave-málsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert