Flokksráð VG styður ríkisstjórnina

Katrín Jakobsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon á flokksráðsfundi VG.
Katrín Jakobsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon á flokksráðsfundi VG. Skapti Hallgrímsson

Flokksráðsfundur VG á Akureyri lýsir yfir fullum stuðningi við störf ríkisstjórnar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingar og telur áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf flokkanna vera kjölfestu fyrir samfélagið í gegnum erfiða tíma.

Þetta eru upphafsorð fyrstu ályktanrinnar sem berst frá flokksráðsfundinum, sem var að ljúka rétt í þessu. Fleiri ályktanir munu berast fundinum von bráðar og einnig birtast inni á vef flokksins.

Svo segir í ályktuninni:

„Meginverkefni núverandi ríkisstjórnar er uppgjör vegna hrunsins og endurmótun íslensks efnahagskerfis með velferðarsamfélag í anda hinna norrænu velferðarsamfélaga að leiðarljósi. Tryggja verður að á næstu árum verði í stjórnarráði landsins stjórn sem kennir sig við velferð og að óheftri frjálshyggju síðustu 18 ára verði úthýst til frambúðar.

Hrun bankakerfisins haustið 2008 skildi eftir risavaxin og fordæmalaus úrlausnarefni fyrir íslenskt samfélag að takast á við. Í Alþingiskosningum sem fram fóru í apríl sl. veittu kjósendur minnihlutaríkisstjórn Vinstrihreyfingunni – grænu framboði og Samfylkingunni fullt umboð til þess leiða áfram vinnu við úrlausn þeirra.  Nú þegar hefur meirihluti þessara flokka náð miklum árangri á skömmum tíma við afar erfiðar aðstæður í þeim endurreisnarstörfum sem hún var kosin til. Má þar nefna hækkun vaxtabóta, heimild til útgreiðslu séreignasparnaðar, frestun allra nauðungaruppboða auk fjölbreyttra úrræða fyrir þá sem glíma við greiðsluerfiðleika. Þá hefur verið lögð áhersla á að efla og auka trúverðugleika eftirlitsstofnanna, t.d. með nýrri og faglegri yfirstjórn í Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu og vinnu við breytingu laga um fjármálafyrirtæki auk þess að stórefla embætti sérstaks saksóknara.

Endurreisn bankakerfisins hefur verið lokið á mun hagstæðari hátt fyrir ríkissjóð en nokkurn hafði órað fyrir, með 250 milljörðum króna minni beinum fjárútlátum en áætlað hafði verið. Einnig hefur tekist að koma böndum á ríkisfjármálin þannig að afkoma ríkissjóðs er mun betri en á horfðist. Auk þessa hefur tekist að tryggja þau lán sem þurfti til að styrkja gjaldeyrisvaraforða Seðlabankans.

Mikilvægt er þó að hafa í huga að verkefnið er tímafrekt, að góðir hlutir gerast hægt, og að flokkurinn mun þurfa á öllu sínu þreki og samstöðu að halda í baráttunni fyrir réttlátara samfélagi. Ekki má gleyma því að oft eru á því skiptar skoðanir hvernig best verði á málum haldið en mestu skiptir að sú lýðræðislega umræða verði til að styrkja hreyfinguna á erfiðum tímum og að ríkisstjórnin haldi ótrauð áfram með sín meginmarkmið að leiðarljósi.

Í tíð ríkisstjórnarinnar hafa ýmiss framfaramál náð fram að ganga sem ekki hefði orðið án þátttöku Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs ríkisstjórn og því ber að að fagna. Skal þar fyrst nefnt afnám hinna alræmdu eftirlaunalaga sem og nýtt tekjuskattskerfi sem mun verja hina tekjulægstu fyrir skattahækkunum og dreifa byrðunum á réttlátari hátt en áður. Þá má einnig nefna jöfn hlutföll kynja í ríkisstjórn, hærri grunframfærslu námslána, skýra og metnaðarfulla stefnu í loftslagsmálum, kaup á vændi hafa verið bönnuð, stækkun friðlandsins í Þjórsárverum hefur verið samþykkt, lög sem bæta stöðu sprotafyrirtækja hafa verið samþykkt, ákveðið hefur verið að leggja niður Varnarmálastofnun og svona mætti lengi telja.

Í því endurmótunarstarfi sem flokkurinn tekur þátt í eiga þau gildi sem flokkurinn leggur til grundvallar samfélaginu: félagslegt réttlæti, friðarstefnu, kvenfrelsi og umhverfisvernd í anda sjálfbærrar þróunar að liggja til grundvallar. Með þeim hætti verður hægt að reisa nýtt Ísland.

Flokksráðfundur lýsir yfir fullu trausti á að ráðherrar og aðrir kjörnir fulltrúar hreyfingarinnar haldi áfram að takast á við erfið verkefni af festu og með grunngildi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að leiðarljósi."

Um 130 manns eru á flokksráðsfundi VG á Akureyri.
Um 130 manns eru á flokksráðsfundi VG á Akureyri. Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert