Mótmæltu skuldabagganum á Austurvelli

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar mætti á mótmælafundinn á Austurvelli í …
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar mætti á mótmælafundinn á Austurvelli í dag og ræddi við fólk. Mbl.is/Árni Sæberg

Nokkur hundruð manns mættu á Austurvöll í dag til þess að mótmæla stökkbreyttum höfuðstól lána landsmanna. Samkvæmt tilkynningu frá Nýju Íslandi og Hagsmunasamtökunum heimilanna telja þau, skipuleggjendur mótmælanna að um 600 manns hafi mætt á fundinn.

„Nú er tækifæri alþingismanna  og ríkisstjórnar að hlutskipti fólksins verði ekki bara að erfa skuldir útrásarvíkinga og tengdra aðila. Því vilja samtökin Nýtt Ísland bjóða þeim að koma með ný úrræði og leiðréttingar fyrir skuldsettar fjölskyldur fyrir næsta kröfufund laugardaginn 23. janúar.

Það má óttast að upp úr sjóði í þjóðfélaginu verði ekki kröfum fólksins í landinu mætt. Samtökin lýsa yfir miklu ábyrgðarleysi stjórnvalda og ábyrgðarleysi allra þingmanna við að koma Íslandi úr efnahagsþrengingum. Landið er nær stjórnlaust og eignir fjölskyldna brenna upp vegna stjórnleysis á Íslandi," segir í tilkynningu frá Nýju Íslandi.

Fjórir þingmenn mættu á fundinn, þær Birgitta Jónsdóttir og Margrét Tryggvadóttir, Hreyfingunni og Gunnar Bragi Sveinsson og Vigdís Hauksdóttir, Framsóknarflokki.

Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness flutti ræðu ásamt Guðrúnu Döddu Ásmundardóttir úr stjórn Hagsmunasamtaka heimilanna og Birki Högnasyni, formanni ungliðadeildar Sjúkraliðafélags Íslands.

Þetta var sjötti kröfufundur nýs Íslands og Hagsmunasamtaka heimilanna í vetur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert