Grunur um fjársvik

Kínverska sendiráðið festi nýlega kaup á húsinu Skúlagötu 51.
Kínverska sendiráðið festi nýlega kaup á húsinu Skúlagötu 51. Golli/Kjartan Þorbjörnsson

Fjórir menn hafa í dag verið yfirheyrðir hjá embætti Ríkislögreglustjóra, auk þess sem gerð var húsleit á þremur stöðu þar sem lagt var hald á ýmis tölvugögn og bókhaldsgögn. Sl. föstudag var hald lagt á 92 miljónir króna vegna meintra fjársvika við sölu á fasteign til Kínverska sendiráðsins. 

Í samtali við mbl.is segir Helgi Magnús Gunnarsson, yfirmaður efnahagsbrota hjá Ríkislögreglustjóra, búið að sleppa þremur mannanna eftir yfirheyrslu en enn eigi eftir að taka ákvörðun um það hvort fjórða manninum verði sleppt að yfirheyrslu lokinni með hliðsjón af rannsóknarhagsmunum. 

Forsaga málsins er sú að fasteignin við Skúlagötu 51 var í eigu félagsins Vindsúlur en þar í forsvari er Aron Karlsson ásamt föður sínum Karli Steingrímssyni. Fasteignin var veðsett fyrir rúman milljarð króna vegna lána í Arionbanka, Íslandsbanka og Glitni. Um miðjan desember sl.  var gengið að tilboði frá indversku fyrirtæki í fasteignina fyrir 575 milljónir króna. Bankarnir féllust á þessa sölu. Skömmu síðar var hins vegar samþykkt tilboð frá kínverska sendiráðinu upp á 875 milljónir. Í millitíðinni var búið að færa fasteignina í nýtt félag, 2007 ehf., í eigu sömu aðila, en félagið heitir núna AK fasteignir.

Lögmaður bankanna þriggja kærði málið til Ríkislögreglustjóra í framhaldi af fréttaflutningi RÚV, en bankarnir höfðu enga vitneskju um tilboð Kínverjanna eða flutning eignarinnar milli félaga. Bankarnir telja að þeir hafi verið hlunnfarnir um 300 miljónir króna.
 
Spurður hvar milljónirnar 92 hefðu fundist segir Helgi Magnús þær hafa verið á bankabók í eigu félagsins 2007 ehf. sem er í eigu Karls og Arons. Var féð rakið og hald lagt á það.

Að sögn Helga Magnúsar má búast við því að fleiri vitni verði kölluð til yfirheyrslna þegar búið verði að fara nánar yfir haldlögð gögn. Inntur eftir því hvort og hvenær búast mætti við hugsanlegum ákærum segir Helgi Magnús erfitt að segja til um það þar sem mjög mikið álag sé á starfsmönnum Ríkislögreglustjóra og því erfitt að setja málið í forgang.

Þeir sem voru yfirheyrðir í dag voru auk feðganna fasteignasalinn og lögmaðurinn sem komu að viðskiptunum. Húsleit var gerð á starfsstöð þeirra feðga og einnig á fasteignasölunni og umræddri lögmannsstofu.


 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert