NPR fjallar um Icesave-deiluna

mbl.is

Bandaríska fjölmiðlafyrirtækið National Public Radio (NPR) fjallar ítarlega um Icesave-málið á fréttavef sínum í dag. Þar er rætt við Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, Steingrím J. Sigfússon, fjármálaráðherra og Jóhannes Þór Skúlason, fulltrúa InDefence.

Fjallað er um forsögu Icesave-deilunnar og ákvörðun forseta Íslands að skrifa ekki undir Icesave-lögin sem samþykkt voru á Alþingi í desember.

Ólafur Ragnar segir í viðtali við NPR að það sé lykilatriði í stjórnkerfi Íslands að almenningur fái að segja skoðun sína og það sé hlutverk forseta að tryggja að fólkið hafi lokaorðið um setningu laga.

Jóhannes segir í viðtali við NPR að Íslendingum beri ekki að endurgreiða Hollendingum og Bretum og ef svo færi að um endurgreiðslu yrði að ræða þá þyrfti hún að vera með betri skilyrðum heldur en þeim sem fylgja núverandi samkomulagi.

„Ímyndaðu þér hver niðurstaðan yrði í Bandaríkjunum ef skattgreiðendur hefðu möguleika á að greiða atkvæði um lögin. Ímyndaðu þér það," segir Steingrímur í viðtali við NPR. Hann segir það ekki auðvelt að sannfæra kjósendur um að samþykkja auknar skattgreiðslur og frekari efnahagslegar byrðar vegna óábyrgrar hegðunar bankamannanna.

Segir í greininni að Steingrímur sé afar ósáttur við þá ákvörðun forseta Íslands að skrifa ekki undir lögin og eðlilega sé almenningur ekki sáttur við samkomulagið. „Ekkert okkar er sátt við þetta en við verðum að leysa þetta svo við getum haldið áfram og með enduruppbyggingu efnahagslífsins," segir Steingrímur.

Greinin í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert