Fengu húseignir á góðum kjörum

Horft yfir Reykjavík.
Horft yfir Reykjavík. mbl.is/RAX

Mágur Björn Vals Gíslasonar, þingmanns Vinstri grænna, keypti nýverið húseign í Reykjavík á 75 milljónir, en eignin hafði nýlega verið verðmetin á 175 milljónir. Tvær aðrar húseignir hafa nýlega ratað í hendur þingmanns og fyrrverandi þingmanns á góðum kjörum.

Sigrún Davíðsdóttir fréttamaður greindi frá þessu í pistli í Speglinum á Rúv í kvöld. Fram kemur að bankarnir hafi setið uppi með hundruð fasteigna sem þeir segist selja í gagnsæu ferli. Eftirgrennslan Sigrúnar hafi hins vegar sýnt fram á að brögð séu á að viðskiptum orki tvímælis. 

Eignarhaldsfélag keypti 1.500 fermetra atvinnuhúsnæði við Grensásveg á 75 milljónir kr. Löggiltur fasteignasali hafi hins vegar metið raunverð eignarinnar vera 175 milljónir í haust. Nýi Landsbankinn hafi verið eigandinn. Mágur Björns Vals situr í stjórn eignarhaldsfélagsins.

Spegillinn segist hafa heimildir fyrir því að Aðalsteinn, bróðir Björns Vals, hafi samið um kaupin og standi þar raunverulega að baki. Landsbankinn fullyrði hins vegar að söluverðið sé eðlilegt með vísan til þess að eignin sé illa farin.

Þá kom fram í Speglinum að Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinar, hefði sl. haust keypt einbýlishús í Skerjafirði af Arion banka á 75 milljónir. Fasteignasalinn fullyrði að verðið sé eðlilegt en aðrir fasteignasalar, sem Spegillinn ræddi við teldu eðlilegt verð vera 85-90 milljónir.

Einnig var nefnt að Sigríður Anna Þórðardóttir, sendiherra og fyrrverandi þingmaður og ráðherra Sjálfstæðisflokks, hefði keypt raðhús við Klettás af Arion banka sem hefði verið lítið eða ekkert auglýst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert