Gerður Kristný hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör

Gerður Kristný með verðlaunin.
Gerður Kristný með verðlaunin. mbl.is/Golli

Gerður Kristný rithöfundur hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóð sitt „Strandir“ í árlegri ljóðasamkeppni lista- og menningarráðs Kópavogs. Gerður Kristný er áttundi handhafi verðlaunanna frá stofnun samkeppninnar árið 2002.
 
Verðlaunaafhendingin fór fram við hátíðlega athöfn í Salnum, Tónlistarhúsi Kópavogs, að kvöldi afmælisdags Jóns úr Vör, 21. janúar. Þetta kemur fram í tilkynningu.
 
„Hugleiðin er farin en viðfangsefnið er samt beint úr raunveruleikanum,“ segir meðal annars í rökstuðningi dómnefndar fyrir vali hennar á vinningsljóðinu sem birt verður í Lesbók Morgunblaðsins um næstu helgi. „Áhrifin felast meðal annars í því að dvalist er einhversstaðar á mörkum hins huglæga og hlutlæga.“
 
Ljóðum er skilað inn í samkeppnina undir dulnefni og vissi dómnefnd ekki fyrr en afloknum störfum hennar hver hefði ort þau. Auk Gerðar Kristnýjar hlaut Bjarni Gunnarsson ljóðskáld sérstaka viðurkenningu fyrir „Smíðar“, sem þykir sýna „tvær hliðar skáldskapar á hugvitssaman og jafnframt skáldlegan hátt“.
 
Dómnefnd skipuðu Ingibjörg Haraldsdóttir rithöfundur, Sigþrúður Gunnarsdóttur bókmenntafræðingur og Þórarinn Eldjárn rithöfundur, sem var formaður. Dómnefndin komst að einróma niðurstöðu.
 
Þetta er í níunda sinn sem lista- og menningarráð Kópavogs stendur fyrir ljóðasamkeppni þessari en hugmyndin er upphaflega komin frá félögum úr Ritlistarhópi Kópavogs. Um 300 ljóð bárust í keppnina. Sigurvegarinn fær 500 þúsund króna peningaverðlaun og verðlaunagripinn, Ljóðstaf Jóns úr Vör, áletraðan með nafni sínu til varðveislu í eitt ár auk eignargrips sem Sigmar Ó. Maríusson gullsmiður hannaði. Höfundur ljóðsins, sem hlaut sérstaka viðurkenningu, fær 150 þúsund króna verðlaun.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert