Segist hafa keypt hús á yfirverði

Skúli Helgason.
Skúli Helgason. mbl.is/Ómar

Skúli Helgason, alþingismaður, segir í grein á netinu í kvöld, að hann hafi síðsumars keypt fasteign á yfirverði á opnum markaði í kjölfar auglýsinga í dagblöðum og á netinu. Fram kom í Speglinum í Ríkisútvarpinu og fréttum Sjónvarpsins í kvöld, að Skúli hefði keypt hús í Skerjafirði af Arion banka.

Skúli segir í pistli á Pressunni, að hann og fjölskylda hans hafi síðsumars gert tilboð í fasteign á Gnitanesi sem auglýst var í fasteignaauglýsingum Morgunblaðsins. Margir hafi skoðað eignina og fleiri tilboð bárust og hafi Skúli á endanum þurft að borga 3 milljónir króna yfir ásettu verði.

Húsið hafi verið ótrúlega illa farið að innan miðað við ytra útlit og undanfarna þrjá mánuði hafi fjölskyldan, vinir og vandamenn því unnið hörðum höndum að endurbótum ásamt iðnaðarmönnum og sé því starfi hvergi nærri lokið.

Skúli segir, að fasteignasalan hafi staðfest við fréttamann Útvarpsins að söluverðið hafi verið eðlilegt miðað við ástand hússins en engu að síður gefi fréttastofa Sjónvarpsins í skyn að um óeðlilega fyrirgreiðslu hafi verið að ræða. 

„Ég geri mér grein fyrir því að stjórnmálamaður á Íslandi getur ekki farið fram á það að fá að vera í friði með sitt einkalíf en það er óneitanlega magnað þegar heiður fjölskyldu manns er dreginn í svaðið í Ríkisútvarpinu án þess að maður fái tækifæri til að bera hönd fyrir höfuð sér," segir Skúli m.a.

Pistill Skúla

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert